mánudagur, september 10, 2007

Mannamót - vegamót - stígamót - kökumót - en þó eiginlega bara Veðramót!

Ég fór í bíó í gær.....jú í alvöru, ég er að meina þetta ég actually fór í bíó í gær. Svanhildur mun styðja frásögn mína því við fórum saman á myndina Veðramót í gær. Myndin fékk alveg geysigóða dóma eftir frumsýninguna þannig að ég hugsaði með mér að kannski væri ekki svo slæmt að kíkka í bíó svona einu sinni og sjá eina enn íslensku snilldina. Sá reyndar ekki Mýrina, ekki Börn, ekki Foreldra, ekki Kaldaljós, ekki Astrópíu og örugglega ekki alveg fullt af fleiri myndum sem gagnrýnendur kepptust um að hylla. Kannski bara sem betur fer miðað við það að Veðramót stóðst ekki væntingar mínar. Mjög vel leikin það verður að viðurkennast en allt of hæg og í raun vantaði svona hápunkt fannst mér. En hvað veit ég, ég sem fer aldrei í bíó. Ég viðurkenni samt að mig langar mikið að sjá allar þessar íslensku myndir sem ég sá ekki í bíó - ef einhver bara drattaðist til þess að gefa þetta út á DVD......


Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekkert bloggað í allt sumar og hef fengið smá skammir fyrir það. Ég hef afsakað mig með því að það sé svo sjúklega mikið að gera í nýja bisnessnum að framkvæmdarstjórar hafi ekki tíma í svona vitleysu. Auðvitað er ég bara að ljúga því - ég er búin að hafa meir en nógan tíma. Það er bara búin að vera svo sjúkleg leti í gangi að það er varla að ég hafi lesið annara manna blogg og hvað þá nennt að skálda eitthvað inn á þessa síðu.

Hápunktar sumarsins voru þó nokkrir:

Hrefna Dögg og Soffi giftu sig með pompi og prakt og héldu frábært partý í tilefni þess. Svo mikil var gleðin að ákveðnir veislugestir voru teknir af löggunni síðla nætur. (Ég tek það fram að þá var ég farin að sofa og þetta var ekki heldur Soffía amma þó hún sé þekkt fyrir ýmiss konar ósæmilega hegðun á mannamótum)

Erla móðursystir varð 70 ára og hélt heillar helgar veislu í Drangshlíð á Suðurlandinu. Þar tókst loksins að draga saman alla móðurfjölskylduna ( - 1) en það hefur ekki tekist síðan....ja ætli ekki séu komin ein 20 ár síðan og þá var helmingurinn ekki fæddur!!! Þetta var mikil gleði og ég er ekki frá því að fyrst að við komumst að því hvað við erum nú öll skemmtileg að þá taki okkur að hittast innan næstu 20 ára. (Ágætis tímarammi en best að vera raunsær)

Verslunarmannahelgin þar sem ég drapst nærri því úr kulda enda hefði ég allt eins getað tjaldað á Suðurskautinu..... þar sem annar hver maður beilaði á skipulagðri útilegunni (segi hér með af mér sem skipuleggjandi) ..... þar sem rúmlega helmingur "hópsins" fór með sjúkrabíl á slysó og borgaði 10 þúsund kall í Taxa til að komast aftur í stuðið...... þar sem að við buðum ungmennahóp í gítarsprell með okkur og ég komst að því hvað við erum gömul og hallærisleg þegar fyrst ég heyrði einn ungan mann hvísla að öðrum ungum manni (þeir voru nýkomnir) " hey maður þú sagðir mér ekki að þetta væri svona gamalt lið" !!!!!!!!
...og þegar Snorri var að spila eitt gamalt og gott með Ný Dönsk og ein stelpan biður okkur vinsamlegast að spila eitthvað sem allir kunni!!!!!!
Já héðan í frá panta ég hótelherbergi einhversstaðar, spássera í bænum á daginn og spila svo brids á hótelbarnum á kvöldin.

og svo síðast en ekki síst
Stofnun Ómissandi ehf. -þegar ég og Bjögga héldum upp á stofnun nýja fyrirtækisins með því að drekka ótæpilega af rauðvíni og syngja ALLA singstardiskana í röð - jebb nágrönnunum ábyggilega til mikillar gleði.

Það gerðist ábyggilega fleira markvert í sumar - ég bara man það ekki. Þið kannski sendið mér línu ef ég var einhverstaðar þar sem ég man ekki eftir að hafa verið og gæti mögulega af einhverjum óskiljanlegum ástæðum verið einn af hápunktum sumarsins.

Gangið greitt um gleðinnar dyr......annars nær löggan ykkur

Erla

enda þetta á mynd sem er mjög lýsandi fyrir okkur hjúin (þið ráðið hvort þið trúið því eða ekki)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home