þriðjudagur, apríl 11, 2006

Samkvæmt nýjustu fréttum er miðja höfuðborgarsvæðisins í dag í Fossvogi, nánar tiltekið í bakgarði í Goðalandi. Hefði verið skemmtilegra hefði það verið í bakgarðinum hjá Bjöggu og Ingó í Gautlandinu – þau hefðu getað haldið partý með viðeigandi nöfnum eins og “Magnað í miðjunni” .....og já eins og ég segi, einhverjum fleiri skemmtilegum nöfnum. En málið er að ég sé nú að staðsetningin á nýju íbúðinni okkar er svona aldeilis nálægt miðjunni og það verður að teljast gott. Reyndar er byggðin orðin svo dreifð að það liggur við að ég sé að flytja í miðbæinn, svona miðað við það. Held samt að ég muni sakna hverfisvitundarinnar héðan úr Vesturbænum þar sem að allir halda með KR, versla í Melabúðinni og kaupa sér í í ísbúðinni Úlfarsfelli þó að úti sé fimbulkuldi og klukkan nálgist miðnætti. En hver veit, kannski er bara rífandi stemming í verslunarkjarnanum Miðbæ, kannski mæta allir í kaffi í bakaríið þar fyrir vinnu, skreppa svo í sjoppuna í pulsu í hádeginu og grípa svo með sér fisk úr fiskbúðinni svona rétt fyrir kvöldmat. Þarna er líka banki, hreinsun og kjötbúð þannig að ég sé ekki fram á að þurfa að fara langt til þess að sækja nauðsynjar.
Það líður semsagt að afhendingu – afhendingu sem gæti vart átt sér stað á leiðinlegri tíma nema kannski það væri Þorláksmessa. Við fáum nefninlega afhent á laugardaginn og fyrir landsbyggðartúttu eins og mig sem vill heimsækja familíuna á hátíðum sem þessum er þetta ómögulegt. Valið mitt stendur nú á milli þess að fara til mömmu á morgun í eina nótt og pabba í eina nótt, koma svo aftur og eyða páskunum í svotil tómri íbúð – eða þá að keyra til mömmu á morgun, koma suður á laugardaginn og keyra aftur norður til pabba á sunnudagsmorgun! Hvorug hugmyndin heillar mikið – ég er ekki að nenna þessari keyrslu. En hvað getur maður gert? Þið sem verðið í bænum á laugardaginn, þykir vænt um mig og eruð til í að aðstoða við smá kassaburð endilega hafið samband :o)

Gleðilega páska ungarnir mínir
Erla María

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home