fimmtudagur, mars 23, 2006

UMFERÐARÝGI
Ég er yfirleitt mjög þolinmóð bílstýra, flauta ekki á aðra nema brýn ástæða sé til (og kannski vegna þess að bílflautan mín er biluð), gef stefnuljós við öll möguleg tækifæri og keyri yfirleitt á löglegum hraða. Þetta á samt alls ekki við alla bílstjóra, það eru allt of margir óþolinmóðir og ótillitssamir í umferðinni. Ég er samt alls ekki sammála þeim sem tala um að Íslendingar upp til hópa séu hræðilegir bílstjórar og kunni ekki að haga sér í umferðinni. En um daginn fyrir hitti ég mann sem greinilega þjáðist af mikilli umferðarýgi (umferðarreiði/árásargirni). Þannig var mál með vexti að ég var að keyra Ármúlann að leita að ákveðinni verslun. Það þýddi að ég þurfti töluvert að skima í kringum mig meðan á akstrinum stóð og þar af leiðandi keyrði ég hægar en ella. Ég keyrði samt ekkert lúshægt og var meira að segja líklega akkúrat á hámarkshraða þessarar götu en það eru víst ekki allir á eitt sáttir við bílstjóra sem fara að lögum því skyndilega tók ég eftir því að á eftir mér var jeppi sem ók alveg í “rassgatinu” á mér. Ég skildi það svo að sá væri að flýta sér og jók því hraðann smávegis en jeppinn var um leið kominn alveg ofan í mig aftur og ég sá hvernig bílstjórinn hristi hausinn, baðaði út höndum og blótaði mér. Ég lét mér fátt um finnast og ætlaði ekki að gefa í og eiga það á hættu að missa af því hvar verslunin var. Áður en ég vissi af sveigði jeppinn fram fyrir mig og fimm metrum framar beygði hann snögglega inn í bílastæði. Hann munaði greinilega mikið um þessar 4 sekúndur. Út úr farþegasætinu sá ég koma konu og úr bílstjórasætinu karl um fertugt og hann var greinilega allt annað en ánægður með ökuhæfni mína því þegar ég keyrði fram hjá gretti hann sig í framan, öskraði á mig (líklega einhver ókvæðisorð) og rétti mér puttann!!!!! Ég missti næstum andlitið, þarna stóð fertugur karlmaður og rétti mér puttann um hábjartan dag og fyrir það eitt að seinka för hans um mesta lagi 1 mínútu – þessi framkoma særði blygðunarkennd mína og ég var allan daginn að jafna mig á þessari uppákomu. Mér líður ágætlega núna en er viss um að þessum manni líður áfram illa í umferðinni – vona að hann leiti sér hjálpar sem fyrst.

Nokkrum dögum seinna komst ég hins vegar að því að það eru til alveg jafn elskulegir bílstjórar og þeir eru til ömurlegir. Gáfnaljósið ég varð bensínlaus á Miklubrautinni í mikilli umferð á bíl systur minnar sem ég veit núna að er ekki með neitt bensínljós! Ég hringdi að sjálfsögðu í Villa minn og óskaði eftir björgun. Á meðan ég beið þarna með hálfan bílinn á grasinu en hinn á götunni brunuðu fram hjá hundruðir bíla án þess að stoppa. En viti menn rétt áður en að Villi mætti á svæðið stoppaði maður um fertugt á jeppa og rölti til mín og bauð fram aðstoð sína. Ég afþakkaði pent en þakkaði honum ástsamlega fyrir boðið. Litlu síðar kom Villi með bensín í brúsa og ég komst heil og höldnu heim.

Já þeir eru ekki allir eins fertugu jeppakallarnir í Reykjavík. Ef einhver þekkir manninn á KR 482 mitsubishi jeppa má hann færa honum koss frá mér fyrir umhyggjusemina!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home