fimmtudagur, júní 30, 2005

Ég hef nú formlega fengið viðurnefnið "litla systirin feita"! Þetta mun sjálfsagt koma mörgum í opna skjöldu - en þeir sem hafa nýlega séð mig sem og systur mína ættu að kveikja á perunni. Nafngiftin varð þó ekki formleg fyrr en í gærkvöldi þegar systir mín kær, sem á sínum menntaskólaárum gengdi nafninu Fía Feita, afhenti mér til notkunar sekk fullan af fötum. Ástæða þessarar góðmennsku systur minnar var sú að föt þessi hæfðu ekki vaxtarlagi hennar lengur - hún náði ekki að fylla út í þau :o) Ég hins vegar er þeim kostum gædd að fylla vel út í umræddar flíkur og fæ því afnot af þeim þar til systir mín sæl fellur í þá gryfju að borða sér til óbóta. Á meðan uni ég feit og sæl í ´"nýju" fötunum mínum!!!!

Kveðja frá litlu systirinni feitu

þriðjudagur, júní 28, 2005

Plön næstu helgar hafa ekki enn verið fullstaðfest – það hefur þó verið staðfest að stórvinur minn og ferðalangur Hilmar Kristjánsson verður 25 ára og í tilefni þess hafa hann og hans frú blásið til veislu á heimili tengdaforeldranna í Kópavogi. Þannig að föstudagskvöldinu verður væntanlega varið í glaum og gleði þar á bæ! Það er svo spurning með laugardaginn – hvort að það taki því að skella sér í einnar nætur gaman í tjaldi.....

Að öðru..
...í gær horfði ég á verðandi, fyrrverandi konu núverandi kærasta fyrrum konu Bubba koma fram á stöð 2 og lýsa því hvernig hún hefur í raun verið ofsótt af blaðamönnum síðan upp komst að maðurinn hennar og Brynja eru farin að vera saman. Þessi kona hefur þurft að þola það að breytast úr óþekktri, venjulegri móður í eitt nýjasta “celeb” slúðurblaðanna! Og það sem er enn verra þá þurfa börnin hennar að þola þetta líka.

Síðan kom Eiríkur Jónsson ritstjóri Hér og Nú þar sem hann lýsti því yfir að það væru bara eðlileg vinnubrögð að leggja saklaust fólk í einelti af því að það á einhvern hátt tengist einhverju sem var orðið að fjölmiðlamáli – án þess að hafa haft nokkuð um það að segja! Svo skilur hann ekki öll lætin í kringum þetta, segir konuna lygara og bætir við að hann skilji ekki af hverju þetta ætti að vera eitthvað öðruvísi á Íslandi heldur en í öðrum löndum sem við viljum svo gjarnan bera okkur saman við nema þegar okkur hentar. Nú auðvitað eigum við ekki að reyna að vera eins og önnur lönd í einu og öllu......sérstaklega ekki því sem er neikvætt og siðlaust eins og blaðamennska Hér og Nú virðist vera orðin. Þrátt fyrir að slúðurblöð annarra landa keppist um að reyna að grafa upp ótrúlegustu hluti úr einkalífi fólks þýðir það ekki að við Íslendingar verðum að gera það líka. Álit mitt á Eiríki Jónssyni hefur svo sem aldrei verið mikið – í dag er það ekkert og mér finnst að hann og hans starfsmenn sem eiga þátt í þessu ættu að skammast sín, eins og maðurinn sagði í gær!!!

Ég held að flestum sé nákvæmlega sama þótt að Brynja og kallinn hafi verið að sofa framhjá enda kemur það þjóðinni ekkert við – og ef það er satt – af hverju þá í ósköpunum að gera líf óþekktrar konu og skilnað hennar enn verri en hann þarf að vera. Og af hverju í ósköpunum er þá blessaður karlinn ekki lagður í einelti og eltur af ljósmyndurum – þetta er meira honum að kenna en henni!!!!
Djöfull – ætla aldrei aftur að kaupa Hér og NÚ!

föstudagur, júní 24, 2005

Í dag erum við Villi búin að vera saman í 3 ár og tvo daga, sofa saman í 1096 skipti, kyssast 54.850 sinnum og rífast 3 sinnum! Já það hefur ýmislegt gerst á þessum þremur árum!!
Í tilefni þessa vil ég þakka myndlistaskólanum á Akureyri, fyrrum leigusala mínum í Gilinu á Akureyri, Djúpu Lauginni, 22 og öllum öðrum sem áttu sinn þátt í að koma mér og Villa mínum saman :o)

miðvikudagur, júní 22, 2005

Ég hef tekið að mér enn eina vinnuna – já það ætti ekki að vefjast fyrir neinum hvers kyns dugnaðarforkur ég er. Þetta er meira að segja sjálfboðavinna sem verður unnin eftir seinniparts/kvöldvinnuna mína og um helgar.....þó eingöngu á sólríkum dögum!

Annars langar mig að auglýsa eftir fólki sem tók myndir á ríjúníoninu í síðustu viku – ég tók engar enda á ég ekki digitalvél og eins og allir vita er hreint út sagt hallærislegt að taka myndir á venjulega, ódýra filmumyndavél + að ég hef ekki sent síðustu 25 filmur sem ég hef tekið á, í framköllun – það virtist því til lítils að fara að taka fleiri myndir!!

Annars horfði ég á ótrúlega fyndna þætti í gærkvöldi. PENN & TELLER – BULLSHIT minnir mig að þeir heiti. Þar eru tveir menn sem gera sig út fyrir að vera gífurlegir efasemdarmenn um allt sem ekki er stutt vísindalegum gögnum. Þættirnir ganga í stuttu máli út á að drulla yfir hluti eins og miðla, óhefðbundnar lækningar, tilvist geimvera og þá sem sagst hafa verið numdir á brott að slíkum og fleiru og fleiru. Þeir taka viðtöl og sýna frá viðkomandi fólki og ræða svo við vísindamenn og lækna um sannleiksgildi þessa fólks.

Dæmi: Penn og Teller fóru á risa ráðstefnu um geimverur og alien abduction. Þar ræddu þeir við ýmsa gesti og fyrirlesara sem margir hverjir hafa gefið út fjölda bóka og grætt á tá og fingri á trúgjörnu fólki. Þar var líka viðtal við konu sem sagðist hafa verið numin á brott af geimverum í fjölda skipta. Penn og Teller sýndu henni þá silfrað “verkfæri” og spurði hvort hún kannaðist við að hafa séð það meðal geimveranna. Konan hélt nú það og handlék “verkfærið” grátklökk á meðan hún lýsti því hversu gífurlega þróuð verkfæri og tæki geimverurnar notuðu. Og hún kannaðist sko sérstaklega vel við þetta verkfæri enda höfðu geimverurnar stungið því upp í nösina á henni til þess að koma einhverju þar fyrir!!! Þetta var einstaklega skemmtileg lýsing hjá konunni og hún virtist virkilega trúa sjálfri sér – kannski hefði ég trúað henni líka ef að “verkfærið” hefði ekki í raun og veru verið víbrador alsettum smáum kúlum – til aukinnar ánægju – líklega í endaþarmi (sökum grannleika) sem áður hafði verið fjólublár en spreyjaður silfurspreyi = í geimveruverkfærafelulitum!!!!
Á stundum sem þessum sannfærist ég um að það sé fólk þarna úti sem á sér virkilega ekkert líf!

Fyrsta júlí helgin
Síðustu tvö ár hefur leið mín legið á Skóga þessa miklu ferðahelgi (reyndar finnst mér endalaust vera talað um miklar ferðahelgar í fréttum af umferð en hvað um það...) Í ár er ég hins vegar ekki viss um hvert leiðin liggur. Í boði er þó ýmislegt og má þá nefna:

n Skógahátíðina sem væntanlega er með hefðbundnu sniði og venjulega. Hefur hingað til tekist mjög vel enda samferðafólk einstaklega skemmtilegt og ekki spillir fyrir að Nexus er uppruninn á Skógum.
n Sæl Vinkona sem er hátíð í Skagafirði haldin af frumkvöðlakonunni Þórhildi Gísladóttur sem reynir nú að lokka vini, vandamenn og alla aðra í Skagafjarðarsæluna með tilheyrandi gleði og sveitaskap
n Óvænt útilega í guðs grænni náttúrunni, með góðum félögum, góðum bjór og góðu skapi – hvert á land sem er
n Reykjavík eins og vanalega, halda partý og kíkja í bæinn.

Hvað segiði er einhver til í eitthvað af þessu?

þriðjudagur, júní 21, 2005

Þá er ég komin til baka að norðan - kom reyndar að kvöldi 17.júní eftir viðburðaríka daga á elsku Akureyri. Þar fór fram fagnaður gamallra og ekki svo gamallra stúdenta úr MA. Á miðvikudeginum var bekkjarpartý hjá Hólmari - af hinni alkunnu góðmennsku okkar leyfðum við G-bekknum að vera með. Eftir smávægilegar upprifjanir á hver væri að gera hvað - sem við vissum nú flest var haldið á Amor þar sem allir bekkirnir sameinuðust í gríðarlegu tjútti fram á nótt. Mér leið næstum nákvæmlega eins og ég væri komin í menntó aftur - sem var góð tilfinning - mér fannst svo sérstaklega gaman að lífinu þá! Get nú ekki sagt að margir hafi breyst - það er að segja svona til að tala um - sem var gott, í sumum tilfellum - ekki öðrum ;o)
Það má með sanni segja að sumir hafi átt snilldartakta þetta kvöldið hvort sem var á dansgólfinu eða í misviturlegum athugasemdum.....í þessu tilfelli langar mig helst að nefna Stellu og Heiðu Valgeirs - af misaugljósum ástæðum!

16.júní var svo aðalkvöldið þar sem að árgangar hófu daginn á bekkjarpartýum en lögðu svo leið sína í Íþróttahöllina í sameiginlega veislu. Þar fóru fram ýmsar ræður og skemmtiatriði sem sum fóru fram hjá mér en önnur ekki - upp úr stóð samt "aldraður" maður sem "söng" eitthvað hakkalakkabakka lag á mjög einstakan hátt!!! --- Jú og svo auðvitað Lísa sem stóð sig brilljant vel sem fulltrúi okkar 5 ára stúdenta! Að loknum ræðuhöldum, skemmtiatriðum og mat héldu Jónsi og félagar uppi ballstuði. ÉG vildi geta sagst hafa tjúttað fram á rauða nótt eins og planið var en takmarkað þægilegir hælaskór gerðu það að verkum að ég gat ekki staðið í lappirnar lengur en til tvö - þá dró ég Villa, sem enn var í gríðarlegu stuði, heim í sveitina - ég tók nú samt nokkur dansspor í stofunni þar, svona þegar ég var komin úr skónum!!!

Æji þetta var ógeðslega gaman - og ég er strax farin að hlakka til 10 ára stúdentsafmælisins!

Ég fór svo í brúðkaup hjá Siggu frænku á laugardaginn og rétt tókst að halda aftur af tárunum í athöfninni - ég er svo ógeðslega mikið softie!! Um kvöldið kom Rebekka í heimsókn - við kíktum aðeins á Danna og Gunna á Óliver......ég var samt farin snemma heim enda búin á því eftir vikuna!

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ókei nú er þetta allt að gerast.......fimm ára stúdentsafmælið að verða að veruleika! Ég ætla að dansa og drekka og djúsa og skemmta mér ógeðslega mikið - þannig að ég ætla rétt að vona að aðrir verði jafn skemmtilegir og ég ætla mér að vera. ÉG ætla samt ekki að drekka bláa bollu verði hún á boðstólnum - það fór ekki svo vel síðast!

Í dag er sem sagt síðasti vinnudagurinn minn í þessari viku -- váá -- það er yndislegt. Er bara að vinna til fjögur og svo bara að undirbúa sig fyrir brottför. Svanhildur kemur til landsins í kvöld og við ætlum að bruna af stað um hádegisbil á morgun. Hann Kiddi okkar hefur enn einu sinni sýnt sína alræmdu gestrisni og ætlar að hýsa okkur aðra nótt!!! Villi kemur síðan á 16. og ég býst við að gista bara í sveitinni hjá tengdó þá nóttina - reyndar er það smávegis vesen -í fyrsta lagi djöfull dýrt enda verður hátíðartaxti hjá leigubílunum og þess vegna er eiginlega algert möst að við Villinn verðum samferða heim. Ég er því búin að tilkynna honum það að hann verði bara að gjöra svo vel að halda út þangað til mig langar að fara heim :o)

föstudagur, júní 10, 2005

Klukkan er 08:03 og ég er sú eina sem er mætt í vinnuna!!! Ætli allir hafi dottið í´ða í gær? Ég er líka sú eina sem er online á msn núna á sama tíma - hvað er að gerast?

---- Er þetta svona Erla var ein í heiminum dæmi?!

Nú gæti til dæmis einhver brjálaður notandi félagsþjónustunnar mætt og ætlað að drepa einhvern af því að hann fékk ekki fjárhagsaðstoð og ég er sú eina sem hann hefur möguleika á að drepa.........eða hei nei akkúrat í þessum skrifuðu orðum mætti annað mögulegt fórnarlamb í vinnuna.....og annað - hjúkk þetta fer allt að líta betur út :o)

Ég hef líka tekið eftir því að ólíkt venju þá er ég einna duglegust að blogga af þeim sem eru á link-listunum mínum....það er eitthvað furðulegt á seyði!!!!!

miðvikudagur, júní 08, 2005

Bubbi Bubbi Bubbi
Eins og glöggir lesendur tóku eftir átti ég stefnumóti við Bubba í gær. Við fórum í þjóðleikhúsið ég og Bubbi. Bubbi sat á sviðinu en ég á bekk tólf - við vildum ekki gera samband okkar of áberandi svo að þetta varð niðurstaðan. Bubbi var einstaklega töff klæddur og hörku sexý á sviðinu - hann er greinilega að gera góða hluti í Þrekhúsinu kallinn. Hann hóf kvöldið á angurværum ballöðum, færði sig síðan yfir í rokkið, aftur í ballöðurnar og aftur í rokkið. Magnaður dansinn tryllti lýðinn og sumar dömurnar héltu vart vatni yfir goðinu. Þar er helst að nefna tvær dömur á sextugsaldri sem sátu á fremsta bekk og dilluðu sér með í sætinu hvort sem að lögin voru róleg eða rokkuð. Mig langaði líka að dilla mér og á stundum langaði mig jafnvel til þess að rísa upp úr sætinu og rokka en ég sá að það voru fleiri en ég sem tóku eftir þeim stallsystrum og pískruðu um þær og hlógu. Mig langaði ekki að láta pískra um mig og hlæja - ég er svo meðvituð um gjörðir mínar og svo er ég ósköp feimin, með sýniþörf í lágmarki. Ég sat því sem fastast í sætinu alla tónleikana -en leyfði mér þó að hreyfa aðra löppina í takt!
Mér finnst að allir ættu að dilla sér og dansa ef þeim langar - án þess að aðrir geri grín....ég er viss um að dömurnar á fremsta bekk skemmtu sér manna best á tónleikunum enda greinilega gallharðir aðdáendur Bubba! Eins og ég!

Að tónleikunum loknum fórum ég, Bubbi og rauðhærða þokkagyðjan Rebekka á nýja heitasta staðinn í bænum ÓLIVER. Óliver er klassastaður eins og Bubbi minn er klassamaður. Þarna sátum við frameftir kvöldi, sötruðum smávegis öl og ræddum heimsmálin, tónlistarmálin, ástarmálin og ummálin!

Það kom mér síðan ánægjulega á óvart að Gunni er kominn frá Afríku og orðinn yfirþjónn á Óliver svo nú köllum við hann Gunna Óliver en ekki Gunna Vegamót. Gunni Óliver hljómar líka mun eðlilegar!

þriðjudagur, júní 07, 2005

Það er Bubbi í kvöld - eins og allir vita er Bubbi búinn að yngja upp. Fréttin af því með hverri var ekki sönn....hann er búinn að yngja mun meira upp en niður í þennan tannlækni! Ég og Bubbi eigum stefnumót í kvöld - og ekki er Séð og Heyrt eða Hér og nú enn búið að grafa upp lífsferil minn, taka viðtöl við fyrrverandi hjásvæfur og fyrrverandi og núverandi kærasta eða gamla óvini. Enn hefur heldur ekki birst mynd af mér að spóka mig á bikiníi (sem á sér kannski eðlilegar ástæður þar sem að slík spókun hefur ekki verið mikil), blindfullri á bar niðrí bæ (þar sem að ég legg í vana minn að vera bara blindfull í heimahúsum) né af mér úti að skokka með Ólafi Ragnari á Álftanesinu. Ég ákvað því að vera fyrst til þess að deila með heiminum fréttum um samband mitt og poppgoðsins Bubba - verst að ég fann enga krassandi mynd af okkur í faðmlögum....kannski ég reyni að láta smella einni af í kvöld.

Ef þið mætið á afmælistónleikana hans í kvöld gætuð þið hitt okkur saman - ég verð á fremsta bekk með rauðhærðu þokkagyðjunni minni Rebekku til að byrja með en býst við að leiðin liggi síðan á eitthvað glæsikaffihús......enda Bubbi minn ekkert nema glæsimaður ;o)

mánudagur, júní 06, 2005

Þá hafa hetjur hafsins á Skagaströnd verið heiðraðar með nærveru minni þetta árið. Helgin fór ágætlega fram þótt að kuldi og gola hafi gert mönnum smá grikk. Ég hafði að sjálfsögðu pakkað niður eins og infæddur Reykvíkingur fyrir ferðina norður - sem að segir sitt um það hvað maður er fljótur að gleyma. Mér var því kaldara en mörgum öðrum heimamönnum og eyddi því meirihluta tímans af skemmtiatriðum innanbíldyra!! Örn Árnason stóð sig samt nokkuð vel enda vanur maður þar á ferð. Hugmyndin var nú að taka því rólega og eyða kvöldinu í faðmi fjölskyldunnar - það gerði ég líka fram til klukkan 11 en þá þótti mér ráð að heimsækja gamla vini og vinda mér á ball með þeim svona til tilbreytingar. Hin geysivinsæla (að sögn) hljómsveit Von frá Sauðárkróki spilaði fyrir dansi - það er án efa svolítið erfitt að spila heilt ball fyrir jafnbreiðan aldurshóp og var því tónlistin misvel valin. Þeir spiluðu þó norska Júróvísjón lagið í fjórða hvert skipti. Þrátt fyrir að þar sé á ferð meistaraverk þótti mér það fullmikið að því góða en fólk var að fíla þetta og flykktist út á dansgólfið í hvert skipti sem lagið hljómaði!
Ég skemmti mér ágætlega - en fann sterklega fyrir ellinni þar sem að aldurstakmark var eingöngu 16 ár. Þau voru því þarna öll börnin sem ég passaði fyrri fjölda ára. Reyndar var þarna maður 82ja ára að aldri sem að dansaði eins og vindurinn nær allt kvöldið. Hann hafði þekkt aðra elstu menn síðan þeir voru börn að aldri þannig að mér hefði kannski ekki átt að finnast ég svona gömul!
Við Þrúða komumst líka að því að við höfum ekki fylgt þróun Skagstrendinga og eignast börn - en ættum í raun að vera komin með tæplega tvö hefðum við fylgt normalkúrfunni. Þar af leiðandi erum við litnar hálfgerðu hornauga af öðrum íbúum - við sammæltumst um það að minn tími kæmi fyrst enda eldri. Það er svo spurning um að geyma framtíðarheimsóknir í heimahagana þar til ég get spókað mig með barnavagn og bumbu eins og aðrar dömur í plássinu :o)

föstudagur, júní 03, 2005

Þá er enn ein helgin að ganga í garð með sjómannadeginum og tilheyrandi hátíðarhöldum. Hátíð hafsins í Reykjavík, síkátur sjóari í Grindavík og fleiri fleiri hátíðir um allt land. Leið mín liggur í heimahagana þessa helgina þar sem að ég vonast eftir stórkostlegu veðri og góðum mat í faðmi fjölskyldunnar. Missi reyndar af stórafmæli Ingólfs hennar Bjöggu - sem er leiðinlegt mjög enda skilst mér að margt verði um manninn í Gautlandinu annað kvöld. Einnig missi ég af gæsun Siggu frænku sem gengur í það heilaga 18.júní - ég bæti það upp með því að mæta í brúðkaupið. En fjölskyldan kallar eftir heimsókn enda ár og aldir síðan ég kom síðast á ströndina.
Stefnan tekin á hátíðarhöld á morgun, golf, grill og góða skapið - og ef til vill einstaka heimsóknir til vina og vandamanna!!

Um næstu helgi mun ég hins vegar halda til í borginni enda ýmislegt um að vera - tvöfalt 30 afmæli hjá Hlyn og Rögnu og einnig skilst mér að Daníel Bangsapabbi sé að flytja inn í nýja gríðarstóra einbýlishúsið sitt og bjóði því til fagnaðar af því tilefni.

Góða helgi