mánudagur, júní 06, 2005

Þá hafa hetjur hafsins á Skagaströnd verið heiðraðar með nærveru minni þetta árið. Helgin fór ágætlega fram þótt að kuldi og gola hafi gert mönnum smá grikk. Ég hafði að sjálfsögðu pakkað niður eins og infæddur Reykvíkingur fyrir ferðina norður - sem að segir sitt um það hvað maður er fljótur að gleyma. Mér var því kaldara en mörgum öðrum heimamönnum og eyddi því meirihluta tímans af skemmtiatriðum innanbíldyra!! Örn Árnason stóð sig samt nokkuð vel enda vanur maður þar á ferð. Hugmyndin var nú að taka því rólega og eyða kvöldinu í faðmi fjölskyldunnar - það gerði ég líka fram til klukkan 11 en þá þótti mér ráð að heimsækja gamla vini og vinda mér á ball með þeim svona til tilbreytingar. Hin geysivinsæla (að sögn) hljómsveit Von frá Sauðárkróki spilaði fyrir dansi - það er án efa svolítið erfitt að spila heilt ball fyrir jafnbreiðan aldurshóp og var því tónlistin misvel valin. Þeir spiluðu þó norska Júróvísjón lagið í fjórða hvert skipti. Þrátt fyrir að þar sé á ferð meistaraverk þótti mér það fullmikið að því góða en fólk var að fíla þetta og flykktist út á dansgólfið í hvert skipti sem lagið hljómaði!
Ég skemmti mér ágætlega - en fann sterklega fyrir ellinni þar sem að aldurstakmark var eingöngu 16 ár. Þau voru því þarna öll börnin sem ég passaði fyrri fjölda ára. Reyndar var þarna maður 82ja ára að aldri sem að dansaði eins og vindurinn nær allt kvöldið. Hann hafði þekkt aðra elstu menn síðan þeir voru börn að aldri þannig að mér hefði kannski ekki átt að finnast ég svona gömul!
Við Þrúða komumst líka að því að við höfum ekki fylgt þróun Skagstrendinga og eignast börn - en ættum í raun að vera komin með tæplega tvö hefðum við fylgt normalkúrfunni. Þar af leiðandi erum við litnar hálfgerðu hornauga af öðrum íbúum - við sammæltumst um það að minn tími kæmi fyrst enda eldri. Það er svo spurning um að geyma framtíðarheimsóknir í heimahagana þar til ég get spókað mig með barnavagn og bumbu eins og aðrar dömur í plássinu :o)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home