fimmtudagur, mars 08, 2007

Ég stóð ekki við það að elda kjötbollur í gærkvöldi. Í staðinn borðaði ég restina af Subway-bátnum sem ég keypti mér í hádeginu. Ég afsaka mig með því að tengdapabbi var ekki heima og því minni ástæða til þess að halda uppi húsmóðurlegum tilburðum. Hafði nú þó dottið í hug að ryksug – en æ nei alveg rétt – ryksugan er ónýt!!

Hreiðar í Kaupthing veitti mér ekki meiri lukku en Hannes Smárason svo ég verð að bíða aðeins lengur með að láta byggja glerkúluhúsið mitt á Þingvöllum og heimsreisan verður eitthvað á “hold” líka.

Í gær átti ég erindi inn á Hótel Sögu /Radison SAS. Þar var komið upp nýtt skilti og það er greinilegt að Bændasamtökin taka stefnu sína um klámhundafrítt hotel mjög alvarlega.


En um það átti hins vegar ekki frásögn mín af erindi mínu þangað að vera. Þannig var mál með vexti að ég var að leita að trefli sem faðir minn hafði gleymt þar kvöldinu áður. Fyrst fór ég í móttökuna og spurði um trefilinn. Móttökudaman leitaði í óskilamunum en fann hann ekki og benti mér að spyrjast fyrir á barnum þar sem faðir minn hafði horft á fótboltaleikinn. Þangað fór ég og spurði þjóninn um trefilinn umrædda (á íslensku að sjálfsögðu) en þjónninn skildi ekki neina íslensku og bað mig um að snara spurningu minni yfir á ensku. Það var alveg sjálfsagt enda tiltölulega einföld spurning – ég þurfti þó samt að endurtaka hana þrisvar og með leikrænum tilburðum og vísunum í minn eigin trefil í síðasta skiptið. Þjónninn hristi höfuðið og sagðist ekki hafa séð hann og benti mér á að tala við móttökuna. Ég er enn ekki viss um að hann hafi skilið um hvað ég var að tala. Mér er alls ekki í nöp við það að útlendingar afgreiði mig jafnvel þó ég þurfi að tala ensku – en þegar hins vegar það er ekki nóg til þess að ég geti nýtt mér þjónustuna þá er ég farin að setja spurningamerki við ráðningu viðkomandi starfsmanns. Að vísu hefur væntanlega ekki verið krafist af manninum að hann gæti staðið í umræðum um týnda trefla – kannski fannst þeim bara nóg að hann skildi hversu marga bjóra fólk vildi fá!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home