þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ófagra veröld var skemmtilegt leikrit….skrítið en skemmtilegt. Alveg brjálað action í fyrri hluta og mikið hlegið. Seinni hlutinn mun rólegri og dramtískari en góður á sinni hátt. Myndi samt ekki mæla með því við alla – það er of spes fyrir það!!!

Fór í bæinn á laugardagskvöldið. Endaði með Rósu á Sirkus en þangað hef ég varla komið frá því í tíð Ingu Heiðu eða um það bil. En við Rósa þurftum að bíða ansi lengi í röð til þess að komast inn. Svo sem skiljanlegt þar sem að við erum ekki Gabríela Friðriksdóttir, Björk, meðlimir í Maus, Sigurrós eða nokkurri annarri þekktri eða óþekktri hljómsveit sem hleypt er fram fyrir röðina. Nú ætla ég ekki að agnúast út í fólk sem treður sér fram fyrir aðra í nafni frægðarinnar eða vinskaps við dyravörðinn. Slík tækifæri gríp ég oftast fegins hendi. Mér varð bara spurn miðað við fjöldann sem fékk að fara inn án þess að bíða sekúndu í röð, hvort að dyravörðurinn hefði hleypt okkur Rósu fyrr inn hefði ég sagt honum að ég hefði nú einu sinni verið í lúðrasveit og verið djöfull góð. Síðan hefði ég getað trommað “Eye of the tiger” á hurðina…svona svo hann myndi kannski trúa mér ---- ahhhh prófa það næst!!

En að fréttum gærdagsins:
Margrét Sverrisdóttir búin að segja sig úr Frjálslynda flokknum!! Ég er í engum vafa um að það hafi verið rétt ákvörðun. Magnús Þór og Guðjón Arnar eru búnir að ganga fram með slíku offorsi og yfirgangi að óbragð var af. Margrét á betra skilið – aðrir flokksmenn eiga betra skilið og síðast en ekki síst þarf þjóðin ekki á mönnum eins og þeim að halda. Ég hef ekki trú á öðru en að fylgið rjúki niður á við eftir þennan skandal og kemur þá vel á vondan!!

Svo virðist sem flensan og aðrar pestir séu að gera út af við landann þessa dagana. Alla vegana hérna í vesturbænum þar sem annar hver starfsmaður er frá vinnu vegna eigin veikinda eða barna. Sumir skólarnir eru hálftómir og varla er ástandið skárra á leikskólunum. Mér hefur ekki ennþá tekist að næla mér í í þetta vesen enda svo sem ekki á stefnuskránni. Hef litla löngun í að liggja viku eða tvær í bælinu með hita og hósta – jafnvel þó mér þyki lúrinn góður þá er þetta ekki þess virði!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home