föstudagur, apríl 21, 2006

Það virðist ansi margt vera að gerast fyrstu helgina í júlí; Ættarmót á Ströndinni sem verður fyrsta ættarmót lífs míns, Guðrún og Addi flutt til Akureyrar og bjóða í grill og læti, hin árlegu fyrstujúlíhelgarútilegur og ég veit ekki hvað og hvað. Mér sýnist ég verða að reyna að vera á fleiri en einum stað í einu þessa helgi en annað eins hefur víst gerst.
Mér eru sérstaklega minnisstæð tvö atvik þar sem að mér tókst þetta merkilega vel:

1. Þegar ég var að vinna á leikskóla og samstarfsmaður minn brá sér frá í hádegismat eða eitthvað slíkt. Kom svo til baka og spurði hvað ég hefði verið að gera á Eiðistorgi í hádeginu. Ég kannaðist nú lítið við það en hann hafði nú samt séð mig í rauðu íþróttabuxunum mínum, hvítu úlpunni með hvítu húfuna! Ég hef ekki enn uppgvötað hvernig ég fór að þessu.

2. Þegar ég var í sjoppunni á Njálsgötunni og fannst ungur maður horfa óvenju mikið á mig. Ég er að sjálfsögðu alvön að ungir karlmenn horfi á mig...jú gamlir reyndar líka en þetta var svona aðeins öðruvísi. Þegar ég var svo komin að afgreiðsluborðinu stillti þessi ungi maður sér upp við hliðina á mér og hélt áfram að gjóa augunum að mér. Eftir smá stund heilsaði hann. Ég leit á hann og mundi ekki eftir að hafa nokkurntímann séð þennan mann áður en heilsaði þrátt fyrir það fyrir kurteisissakir. Hann sá að ég var ekki alveg að kveikja og spurði hvort að ég þekkti sig ekki og vandræðaleg ég svaraði neitandi og blótaði sjálfri mér um leið fyrir að hafa líklega átt í ölvuðu einnar nætur ástarsambandi við hann í menntó. Áfram hélt hann og spurði hvort ég héti ekki örugglega Erla. Ég játti því og blótaði sjálfri mér enn meira fyrir að hafa greinilega verið drukknari en hann. “Ég hélt það” sagði hann brosandi og spurði hvort að ég myndi ekki eftir því að hafa verið heima hjá honum kvöldið áður með honum og ? vin hans að taka myndirnar. Myndir??? Nei ég kannaðist sko ekki við að hafa verið ein með tveimur strákum að taka einhverjar myndir – ég var erlendis það kvöld. “Ertu viss?” spurði hann þá. “Er ég viss??? Já ég var að koma heim í morgun”!!! Strákurinn afsakaði sig og skildi ekkert í þessu og enn minna skildi ég. Hafði mér kannski þarna tekist að vera á tveim stöðum í einu....meira að segja sitthvoru landinu?! Hver veit – eina sem ég hef verið að hafa áhyggjur af er að þessar myndir sem að hin “ég” og strákarnir vorum að taka séu ósæmilegar og dúkki upp á netinu einn daginn!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home