föstudagur, ágúst 26, 2005

Nú styttist í að nemendur í félagsvísindadeild setjist á skólabekk að nýju – undanfarna daga hafa metnaðarfullir og samviskusamir nemendur staðið í bóka – og ritfangainnkaupum af miklum móð, sumir hafa jafnvel fengið sér tölvukaupalán og fjárfest í eins og einni fartölvu svo að námið verði nú enn skipulagðara. Þetta árið er ég ekki í þessum hópi - reyndar hef ég svo sem aldrei tilheyrt þessum hópi þar sem að ég er ekki metnaðarfull og samviskusöm en þetta árið liggur annað að baki. Ég tilheyri nú hópi hins vinnandi manns, vakna árla morguns, fer í vinnuna og skila mínum átta til tólf tímum og uppsker laun fyrir erfiðið. Varla sanngjörn laun en ég safna a.m.k. ekki frekari skuldum á meðan. Þegar ég var í háskólanum svaf ég fram að hádegi, lagði mig seinni partinn og skilaði litlu sem engu til samfélagsins. Já það eru breyttir dagar þetta haustið og í fyrsta skipti í langan tíma hlakka ég til vetursins enda hluti af stórskemmtilegum vinnustað! Þess má hins vegar geta að ég er þó enn háskólastúdent þar sem ég ætla að reyna að pára niður eitt stykki B.A. ritgerð í vetur – fyrir það borgaði ég 45.000 krónur...það sveið!

Annars er það að frétta að ég á flug til Akureyrar kl. 17 í dag – vildi samt alveg fara bara á morgun......samstarfsfólkið er á leiðinni á barinn eftir vinnu og ég vildi glöð kíkka með. En Árni mágur á líka afmæli í dag – skál fyrir því- og hann býður til matarveislu í sveitinni í tilefni dagsins. Á morgun er svo brúðkaup Jóhönnu og Jóa þannig að veisluhöld eru ekkert á undanhaldi enn sem komið er.

Já daginn sem nemendur félagsvísindadeildar hefja námið á ný, virkja hugann og leitast við að bæta framtíðarsýnina mun ég setjast upp í flugvél á Keflavíkurflugvelli, fljúga til Kóngsins Köben, drekka öl, versla, skemmta mér í félagsskap Svanhildar og ektamanns og virkja dönskukunnáttuna sem hefur séð bjartari daga!

Að lokum vil ég einnig skála fyrir Jóa Króa sem átti afmæli í gær – skál - !

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home