fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Maður myndi halda að eftir jafn langa bloggpásu og raun ber vitni hefði ég frá óteljandi skemmtilegum og áhugverðum sögum að segja.......sem er satt nema ég er búin að gleyma þeim næstum öllum!
Líf mitt hefur reyndar verið tiltölulega viðburðarlítið síðasta mánuðinn eins og í mest allt sumar. Ég hef þó skriðið úr hversdagsleikanum öðru hvoru:

BRÚÐKAUP
Herra og frú Sigmarsson a.k.a. Lóa og Jóhann létu pússa sig saman 23. júlí í safnaðarheimilinu á Akureyri. Eins og mín er von og vísa var ég næstum farin að háskæla enda tilfinningavera mikil :o) Mér tókst þó að kyngja gleðikökknum og halda aftur tárunum mest alla athöfnina. Veislan tókst mjög vel þrátt fyrir að ég hafi verið á “outcast” borðinu og ekki fengið að vera með “vinkonuhópnum”!!! Við úrhrökin sátum aftast í salnum enda vart húsum hæf og hvað þá slíkum hátíðisveislum. Við skemmtum okkur hins vegar konunglega og við borðið fuku ófáir brandararnir. Ég fékk þó að taka þátt í samkvæmisleik (TAKK LÓA) – en vann ekki!

AÐ KVELDI
Ég og Arna héldum í bæinn um kvöldið með Hólmari og Kidda, planið var að setjast og fá sér bjór í rólegheitunum en hver einasti staður var kjaftfullur og hávaðasamur. Það var ekki fyrr en á Oddvitanum að við fengum sæti. Það var reyndar svo hlýtt að við sátum úti langt fram eftir nóttu. Ég held að ég hafi ekki hlegið jafn mikið á einum og sama deginum síðan á menntaskólaárunum og örugglega búin að lengja lífið um 2-3 ár :o)

VERSLUNARMANNAHELGIN
....var án nokkurs efa viðburðarminnsta og rólegasta verslunarmannhelgi í lífi mínu síðan ég og Bakkus bundumst tryggðarböndum. Ég hóf ferðina ein á bláu þrumunni minni og það eina sem var ákveðið var að norður í land skyldi halda. Það endaði með því að ég keyrði í einum sprett til Akureyrar þar sem að mín beið lúxus penthouse íbúðin hans Kidda sem staddur var í pílagrímsferð á U2 tónleika í Köben. Kiddi klikkaði ekki sem fyrr og bjargaði mér um fyrsta flokks gistingu – Takk Kiddi minn!
Helgin var samt með rólegasta móti, ég og Arna fórum ekki einu sinni út úr húsi á föstudagskvöldinu. Á laugardagskvöldinu kíktum við með Söndru Ocares á Hjálma. Ég held að þeir hafi verið búnir að spila í korter þegar ég var orðin lúin og örlítið ölvuð og dreif mig heim – lélegt – ég veit! Á sunnudeginum fór ég á ströndina til pabba, mánudeginum á tangann til mömmu og þriðjudaginn heim. Sem sagt róleg og löng notaleg verslunarmannahelgi!

Það er varla hægt að segja að nokkuð annað merkilegt hafi á daga mína drifið. Djöfull lifi ég tilbreytingalausu lífi!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home