fimmtudagur, maí 26, 2005

Ég fór í 10/11 áðan sem er ekki í frásögur færandi svo sem enda búðin á neðri hæðinni. Það er alltaf kalt í 10/11 á Hjarðarhaga og ég gleymi alltaf að fara í peysu áður en ég fer inn og svo sé ég alltaf eftir því strax og ég labba inn - þetta endar svo alltaf með því að ég eyði allt of miklum pening þar - ekki bara af því að þetta er okurbúlla heldur líka af því að mér er alltaf svo kalt að ég hleyp um búðina, gríp með mér handahófsvalda hluti, borga og flýti mér svo út. Svona eru dæmigerðar 10/11 ferðir mínar........nema áðan því þar var þá að störfum ungmey sem er heiminum ekki ókunn. Þarna var á ferð hin margrómaða söngkona Erna Hrönn íklædd grænni 10/11 peysu og raðaði myllubrauði í hillurnar. Ég gaf mig á tal við hana og smám saman hlýnaði mér og það var eins og hitastigið í búðinni hækkaði örlítið. Mér fannst þetta svolítið undarlegt en áttaði mig svo á því að það hlaut að hafa verið andrúmsloftið sem var alltaf svo kalt......kalt andrúmsloft sem stafaði af köldu afgreiðslufólki sem kom fram við mig sem eina af fjöldanum....sem viðskiptavin án andlits, án sálu og án tilfinninga - samt verslaði ég hjá þeim nær daglega síðasta sumar. Það var því gleðistund þegar ég gekk út úr 10/11 með bros á vör og eðlilegan líkamshita í dag....í fyrsta skipti. Ég lýsi því yfir ánægju með það að Erna sé orðin minn kaupmaður á horninu :o)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home