sunnudagur, desember 31, 2006

Eftir 10 klukkustundir gengur nyja arid i gard med fogur fyrirheit um betra lif og ny taekifaeri. Timi til ad snua vid bladinu tad er ef ad tess er thorf. Nu skulu allir vera godir vid naungann, borda hollt og hreyfa sig meira en i fyrra, vinna vel, hugsa godar hugsanir, kjosa rett og fagna hverjum nyjum degi med gledi i hjarta!!! Eda eitthvad svoleidis..... Eg aetla alla vegana ad reyna mitt besta! Arid byrjar natturulega lika a besta degi arsins ...afmaelinu minu. Mig langar samt ad taka tad fram ad hedan i fra mun aldur minn ganga til baka...eg mun tvi halda upp a 25 ara afmaelid mitt i nott og a morgun......eg er hreinlega ekki andlega tilbuin i tad ad verda 27 ara svo eg bid ykkur ad virda tad!!!

Annars vona eg ad allir skemmti ser hid besta i kvold og nott og skjoti ekki af ser andlitid eda adra likamshluta. Veridid svo endilega ekki ad lemja hvort annad ...tad er nogur timi i tad sidar meir!!!

Nyjar myndir

mánudagur, desember 25, 2006

laugardagur, desember 23, 2006

Keyrði í sama og brakandi blíðu hingað á Ströndina. Soffía systir komst ekki með - ekki af því að ég hafi viljandi skilið hana eftir. Ég fór til þess að sækja hana og Díu - þær bara komust ekki fyrir í litla blá...svo mikill var jólafarangur okkar fjögurra til samans. Hún neyddist því til að fara á eigin bíl og náði því ekki að spara bensín og göngin í þetta skiptið...nema náttúrulega hún hafi látið Díu greyið blæða - enda var það eiginlega henni að kenna að Soffía komst ekki með okkur ;-)

Mætti galvösk í Skötuveislu í félagsheimilinu í dag.....ilmurinn náði langt út á götu og maginn í mér hreinlega öskraði á skötu. Já eða þannig *æl* -- þvílík stækja og viðbjóður....á hverju ári er ég við það að kafna úr þessari ólykt og píni ofan í mig bita eða tveimur af skötu. Af hverju? Jú hefðin... jólin byrja ekki nema þetta komi fyrst. Í ár svindlaði ég hins vegar og fékk mér saltfisk..sem var góður - en lyktin samt engu betri en áður. Villingi guggnaði áður en hann kom inn...can´t blame him...hver í ósköpunum sem ekki hefur þurft að gera þetta í áraraðir eða finnst skata góð myndi fara af sjálfsdáðum í svona "matarboð"?!

Jólin svo hjá ömmu og afa á morgun....jóladagur hjá mömmu....og svo Akureyri um áramótin -- Síjú there.

Gleðiðleg jól alle alle sammen. Jólakortin eru ennþá í bílnum mínum þannig að þið sem eruð ekki svo heppin að vera hérna á Ströndinni um jólin fáið þau bara milli jóla og nýárs :-) (þ.e. ef þið náðuð á jólakortalistann...)

miðvikudagur, desember 20, 2006

KOMIN ÚR KLIPPINGU
Ebba Særún er búin að bjarga jólunum mínum. Mætti eldsnemma í vinnuna í morgun til þess að bjarga þessari hrúgu sem hafði safnast fyrir á höfði mínu og nú sé ég líka mun betur þar sem að toppurinn hangir ekki yfir augunum. Haldiði að það sé munur!!! Ég er búin að lofa henni að hún fái að klippa mig þegar ég læt verða af því að verða stutthærð aftur…… hvenær það verður veit hins vegar enginn.

Ég er samt farin að hafa áhyggjur af jólaveðurspánni. Ætlaði norður á Þorláksmessu en svo spáði svo illa að ég flýtti því fram á föstudagskvöld en nú spáir líka illa þá. Djöfuls vesen – það er eins gott að ég komist samt heim í jólamatinn. Það hefur nú tæpara verið ..árið sem að Soffía skildi mig eftir sofandi þegar hún keyrði norður ein jólin. Ég hafði víst lofað að vera tilbúin árla morguns og hún hafði hótað mér að fara án mín……en ég kíkti aðeins út á djammið kvöldið áður……já aðeins of lengi líka og svaf af mér brottfarartímann og Soffía stóð við sitt!!!! Já það var ekki stórt í henni jólahjartað þá ;-)
Eftir símtalamaraþon við alla sem mér datt í hug að væru ekki farnir norður, mikinn kvíðahnút og almenna óánægju með sjálfa mig og hatrammar aðgerðir systur minnar, komst ég að því að Jóhann ætlaði að fara rétt eftir hádegi. Hvílíkur léttir. Þetta “rétt eftir hádegi” varð reyndar rétt fyrir kvöldmat. Það var því seint og um síðir á Þorláksmessukvöld að ég skreið inn í hús á Hólabrautinni og hófst handa við að skreyta jólatréð!

Þessi jólin ætlar Soffía systir að fá far hjá mér…….. eins gott að ég gleymi henni ekki…….
hahahahahahahahahahahahahahahahahahaha

þriðjudagur, desember 19, 2006

Þá er jólahlaðborði/veislu númer 4 lokið. Að þessu sinni bauð Glitnir mér í hádegisjólamat hjá Sigga Hall. Í gegnum þessa jólatíðina hef ég komist að því að ég er bara alls kostar ekkert svo yfir mig hrifin af jólahlaðborðum. Hluti af því er sú staðreynd að ég borða ekki síld, annar hluti af því er að ég vil hafa mikið af sósu með kjötinu mínu í staðinn fyrir þrjá dropa eða jafnvel enga og síðan finnst mér einfaldlega bara heimatilbúinn jólamatur sem er laus við allt “twist” og “nýjungar” einfaldlega laaaaaangbestur. Held að á næsta ári afþakki ég öll jólahlaðborð og fari bara svona plain út að borða í staðinn.

Þeir sem hafa séð mig undanfarið (sem eru ekki margir ég veit) vita án efa (af því að það er skammarlega sjáanlegt) að ég er ekki búin að fara í jólaklippinguna mína. Er búin að draga það að fara á hárgreiðslustofu í margar vikur. Fer varla út fyrir hússins dyr án höfuðfats og afsaka mig í vinnunni með því að segja að klipparinn minn sé erlendis og ég bara treysti engum öðrum. Svo leið og beið og leið að jólum og ég þorði ekki einu sinni að hringja og reyna að panta tíma neins staðar. Var hrædd um að ég fengi háðsglósur til baka því eins og allir vita verður fólk að panta jólaklippinguna með GÓÐUM fyrirvara. En allur þessi kvíði og allir þessir erfiðleikar og hárljótleiki sem dregur að sjálfsögðu fram allan annan ljótleika er senn á enda. Góð vinkona mín reddaði mér klippingu hjá góðri vinkonu sinni sem að náði að troða mér að svona víst ég ætlaði “bara” í klippingu. Loksins sá ég ástæðu þess að hafa aldrei fengið mér strípur eða lit ……stundum er bara ekki tími fyrir allan pakkann!!!
Á morgun um 9:30 verð ég væntanlega orðin ógeðslega sæt og tilbúin í jólin og það sem meira er ….þið hin þurfið ekki lengur að upplifa hryllinginn…..

miðvikudagur, desember 13, 2006

Í gær var ég stödd í húsi hér í borg þegar þangað kom rafvirki til þess að sinna smávægilegum verkefnum fyrir húsráðendur. Eitt verkefnið var að breyta einhverri tengingu hjá eldhúsborðsljósinu. Ljósið er afar stórt og í senn fögur hönnun og það mun víst líða á löngu þar til ég hef efni á að festa kaup á einu slíku. Nema hvað að umræddur rafvirki óskar eftir aðstoð minni til þess að taka ljósið niður sem ég og geri án nokkurra vandkvæða. (hjúkk!)
Stuttu síðar þegar breytingarnar hafa verið gerðar er kominn tími til að festa ljósakrónuna upp aftur. Ég klifra upp á borð á meðan rafvirkinn góði meðhöndlar krónuna varlega og er við það að fara að standa upp á borðinu líka þegar…………úr höndum hans rennur eitthvað, flýgur á gólfið og mölbrotnar …..og hvað mér brá……greyið rafvirkinn……og fegin ég að hafa ekki verið búin að snerta á ljósinu. Húsráðendur komu hlaupandi fram í eldhús með skelfingarsvip – væntanlega búin að sjá fyrir sér að rafvirkinn væri nú kominn í ómælda tímavinnu hjá þeim til að geta borgað upp ljósið. Sem betur fer var þetta ekki jafn slæmt og virtist í fyrstu. Það var eingöngu risastóra peran sjálf en ekki ljósakrónan sem skall í gólfið í þúsund mola og þegar ljóst var að tjónið var ekki meira voru margir í húsinu sem önduðu léttar. Ábyggilega sérstaklega rafvirkinn!!!!

föstudagur, desember 08, 2006

Í gær var ég næstum búin að æla úr leiðindum í vinnunni einfaldlega vegna þess að ég hafði EKKERT að gera. Ég veit að stundum þegar er ekkert að gera þá er nú ýmislegt sem að hægt er að vinna í samt. Sú var ekki raunin í gær….ég hafði nákvæmlega ekkert að gera og þar af leiðandi vafraði ég stefnulaust um netið, uppfærði mbl og b2 c.a. 100 sinnum yfir daginn og tók bloggrúntinn nokkrum sinnum með ýmsum krókatúrum. Djöfull var ég ógeðslega fegin þegar ég gat loksins komið mér heim. Sá líka fram á skárri dag í dag – tvö viðtöl og svo vinnsla. Fyrsta viðtalið skrópaði og ég bíð nú spennt eftir því hvort að hitt viðtalið komi en á meðan er ekkert að gera! Þess vegna er ég búin að vafra meira um netið og vonast til þess að þið hin séuð búin að klína einhverju nýju bloggi inn hjá ykkur – vonir mínar hafa flestar orðið að litlu í því tilliti ennþá. Í guðanna bænum farið nú að tjá ykkur eitthvað.

Annars er ég loksins orðin löglega á götum borgarinnar eftir að hafa keyrt um í of marga daga sama og ljóslaus. Þakka bara fyrir að stefnuljósin virkuðu allavegana ennþá. Ég hafði tekið eftir því að annað aðalljósið væri farið, svo nokkrum dögum seinna benti nágranni minn mér á að bæði afturljósin væru líka farin og ég ætti nú að drífa mig að skipta um perur. Ég játti því og keyrði svo burt vitandi að það yrði ekki strax. Þessa ljóslausu daga mína fann ég hvernig nágranninn horfði með fyrirlitningu til bílsins (og mín) í hvert skipti sem við mættumst – maðurinn trúir bara ekki hvað ég er mikill trassi þegar kemur að blessuðum bílnum. Að skipta ekki yfir á vetrardekk við fyrstu ísingu, að geyma greyið ekki í skúrnum þegar snjóar (eða alltaf eins og hann), þrífa hann ekki annan hvern dag og hafa hann ljóslausan svo dögum skiptir!! Málið er bara að ég komst ekki til að láta umfelga fyrr en öll hálkan var farin, ég geymi ekki bílinn í skúrnum af því að hann er fullur af drasli ennþá og svo er bara helvíti hressandi að skafa stöku sinnum….þá vaknar maður almennilega, hvað varðar þrifin viðurkenni ég að þau mættu vera tíðari en Hei það er ekki eins og ég hafi allan tímann í heiminum eins og hann sem kominn er á eftirlaun!! Ljósin eru svo alveg kapituli út af fyrir sig. Rafkerfið í bílnum er stórfurðulegt og mér finnst alltaf einhverjar perur vera að springa. Gallinn við það er að ég þarf alltaf að fara í umboðið til þess að láta skipta – strákarnir (hef aldrei lent á stelpu) á bensínstöðvunum treysta sér ekki í þessi ósköp og ekki kann ég þetta sjálf!! En í gær gaf ég mér tíma í hádeginu til þess að skjótast upp í umboð og láta snillingana þar bjarga þessu fyrir mig. Nú keyri ég um áhyggjulaus og þarf ekki að æfa í huganum afsakanir fyrir lögguna skyldi hún stoppa mig vegna ljósleysis – halllelúja!!

fimmtudagur, desember 07, 2006

TÍMINN FLÝGUR
Það er ótrúlegt hvað tíminn flýgur og stundum eiginlega bara svolítið ógnvekjandi. Sérstaklega þegar ég hugsa til þess að í dag eru bara 25 dagar þangað til ég verð 27 ára!!! Ég verð nú bara að segja það að ég er ekki tilbúin til þess að verða 27 ……ég held að það fari mér bara einfaldlega ekki – í alvöru!

Annað sem hefur liðið á ógnarhraða er tíminn minn hérna á Hverfisgötunni. Þegar ég samþykkti að skipta um vinnu í tvo mánuði sá ég fyrir mér langa og erfiða útlegð og útskúfun frá samstarfsfólkinu, tölvunni minni, stólnum mínum, ruslinu á skrifborðinu og fólkinu sem að hellir sér yfir MIG af því að velferðarkerfið, leikskólamálin og allt annað í heiminum er ekki að gera sig. En nei þessi tími er búin að þjóta áfram og jafnframt vera mjög ánægjulegur. Ég fékk nýtt, alveg ljómandi samstarfsfólk, nýjan stól, nýja tölvu og í bónus eigin skrifstofu og frið frá öskrandi fólki. Nú líður samt að lokum þessarar “himnavistar” minnar og þessir fáu dagar sem eftir eru fara mest í jólahlaðborð, jólapartý og annan jólaglaðning sem tengist skrifstofunni. Minni vinna – meira gaman.

Á eftir að sakna ýmislegs og m.a. að krúsa um bílastæðahúsið í leit að stæði á hentugri hæð. Ég hafði alltaf verið svolítið óörugg þegar kom að bílastæðahúsum. Fannst alltaf eins og ég myndi ekki ná beygjunum upp rampana og hlyti að stórskemma bílinn. Ekki jókst öryggið fyrsta skiptið sem ég manaði mig inn. Þar blöstu við mér veggir sem sýndu að ófáir stuðararnir höfðu rekið sig þar utaní…en mér tókst giftusamlega að fara upp nokkrar hæðir og finna stæði án þess að sjáist á bílnum. Nú er þetta hin mesta skemmtun og það er ósjaldan sem ég tek nokkra rúnta um bílastæðahúsið og æfi hraðann í beygjunum. Vörðurinn er líka orðinn einn af mínum betri vinum og það kemur fyrir að við tökum einn kaffi á Gráa Kettinum svona í morgunsárið.


AÐ ÖÐRU
Ægir litli hans Árna Vals er núna staddur í borginni með ömmu sinni. Eitthvað hafði hann frétt af mikilli tölvueign heimilis okkar og vildi ólmur kíkja í heimsókn til Inga frænda og fá að spila tölvuleiki. Það tækifæri fékk hann þegar ég bauðst til þess að við myndum passa á meðan amman færi í kokteilboð. Þar sem ég var enn að vinna þegar pössunin átti að hefjast tók Villi það að sér að taka á móti frænda sínum. Nokkru síðar kom ég heim og þá sátu þeir frændur í stofunni og spiluðu tölvuleik í Playstation og ég settist bara í eldhúsið og las blöðin. Skyndilega heyri ég skothvelli og önnur læti berast úr stofunni. Að mér læðist illur grunur og ég fer og athuga hvort það geti verið að Villinginn minn sé að leyfa FIMM ára frænda sínum að spila einn af hrottalegri playstationleikjum sem ég hef séð ……….og jú þarna sat hann sæll og glaður litli stúfurinn og blastaði hryðjuverkamenn hægri vinstri. Það þarf ekki að taka það fram að hexið ég var fljót að binda endi á það stríð og benti svo Villa mínum vinsamlega á það að hér um bil allir leikirnir sem voru á borðinu væru bannaðir innan 16 ára!!!! Litli stúfur var nú ekkert allt of ánægður með afskiptasemi mína og hvíslaði að frænda sínum hvort að þeir gætu ekki spilað hann bara næst þegar ég væri ekki heima ;-) Það er þeim mjög velkomið ef þetta “næst” verður eftir 10 ár!!

Já svona er ég nú mikil gribba

föstudagur, desember 01, 2006

Jæja þá er ég búin að jafna mig eftir Herra Ísland og get því bloggað smávegis aftur
Loksins er öll hálkan og snjórinn farinn og ég get spænt upp malbikið og lagt mitt af mörkum í að auka svifryksmengunina í borginni. Það er alltaf gaman að tilheyra hópi sem tekið er eftir og hverra afrek eru tíunduð í fréttatímum fjölmiðla. Að auki eru nær öll ljós á bílnum mínum farin og ég er ábyggilega ekki vinsæl meðal annarra ökumanna í myrkrinu, akandi um borgina með eitt aðalljós í lagi…og jú stefnuljósin og eitt bremsuljós. Þarf augljóslega að koma þessu í lag hið fyrsta en þarf þá að koma mér í umboðið á vinnutíma þar sem starfsmenn bensínstöðvanna treysta sér ekki í verkefni eins og að skipta um perur í Peaugot!!!!

Fékk dýrindiskvöldverð í gærkvöldi í mötuneyti SPRON og Arion. Já það hljómar kannski furðulegur staður til þess að fara út að borða en elsku Rebekkan mín bauð mér að koma í vinnudinner sem staðgengill Dodda sem sat sveittur heima í próflestri. Þarna elduðu Friðrik af Friðriki V á Akureyri og samstarfsfólk Rebekku fyrir maka sína (og vini í mínu tilfelli) frábæran ítalskan mat, sungu Heims um ból (af því að það var næstum því kominn 1. des) og höfðu það kósí. Mér skilst að það sé Londonferð á döfinni hjá þeim næst og er farin að vona að Doddi verði upptekinn og komist ekki ;)

Á laugardaginn er svo hið árlega fjölskyldujólahlaðborð. Veislan er haldin í sal út í bæ (af því að við erum orðin svo mörg ) og þarf hver að leggja sitt að mörkum hvað varðar veisluföng. Síðast liðin ár hefur mitt verkefni verið að koma með nokkra lítra af gosi. Hvorki krefjandi né mjög streituvaldandi verkefni en býst við að húsmæðurnar í fjölskyldunni hafi ekki haft mikla trú á matreiðsluhæfileikum mínum sem er skynsamlegt af þeim. Verkefnið í ár er hins vegar ekki eins og hin árin. Á jólahlaðborðinu í ár fæ ég mun verðugra og ábyrgðarmeira verkefni. Nú árið 2006 á Erla María að mæta með salat!!! Já mér hefur verið treyst fyrir því að framreiða salat fyrir liðið og gæti ekki verið stoltari!!!