föstudagur, desember 08, 2006

Í gær var ég næstum búin að æla úr leiðindum í vinnunni einfaldlega vegna þess að ég hafði EKKERT að gera. Ég veit að stundum þegar er ekkert að gera þá er nú ýmislegt sem að hægt er að vinna í samt. Sú var ekki raunin í gær….ég hafði nákvæmlega ekkert að gera og þar af leiðandi vafraði ég stefnulaust um netið, uppfærði mbl og b2 c.a. 100 sinnum yfir daginn og tók bloggrúntinn nokkrum sinnum með ýmsum krókatúrum. Djöfull var ég ógeðslega fegin þegar ég gat loksins komið mér heim. Sá líka fram á skárri dag í dag – tvö viðtöl og svo vinnsla. Fyrsta viðtalið skrópaði og ég bíð nú spennt eftir því hvort að hitt viðtalið komi en á meðan er ekkert að gera! Þess vegna er ég búin að vafra meira um netið og vonast til þess að þið hin séuð búin að klína einhverju nýju bloggi inn hjá ykkur – vonir mínar hafa flestar orðið að litlu í því tilliti ennþá. Í guðanna bænum farið nú að tjá ykkur eitthvað.

Annars er ég loksins orðin löglega á götum borgarinnar eftir að hafa keyrt um í of marga daga sama og ljóslaus. Þakka bara fyrir að stefnuljósin virkuðu allavegana ennþá. Ég hafði tekið eftir því að annað aðalljósið væri farið, svo nokkrum dögum seinna benti nágranni minn mér á að bæði afturljósin væru líka farin og ég ætti nú að drífa mig að skipta um perur. Ég játti því og keyrði svo burt vitandi að það yrði ekki strax. Þessa ljóslausu daga mína fann ég hvernig nágranninn horfði með fyrirlitningu til bílsins (og mín) í hvert skipti sem við mættumst – maðurinn trúir bara ekki hvað ég er mikill trassi þegar kemur að blessuðum bílnum. Að skipta ekki yfir á vetrardekk við fyrstu ísingu, að geyma greyið ekki í skúrnum þegar snjóar (eða alltaf eins og hann), þrífa hann ekki annan hvern dag og hafa hann ljóslausan svo dögum skiptir!! Málið er bara að ég komst ekki til að láta umfelga fyrr en öll hálkan var farin, ég geymi ekki bílinn í skúrnum af því að hann er fullur af drasli ennþá og svo er bara helvíti hressandi að skafa stöku sinnum….þá vaknar maður almennilega, hvað varðar þrifin viðurkenni ég að þau mættu vera tíðari en Hei það er ekki eins og ég hafi allan tímann í heiminum eins og hann sem kominn er á eftirlaun!! Ljósin eru svo alveg kapituli út af fyrir sig. Rafkerfið í bílnum er stórfurðulegt og mér finnst alltaf einhverjar perur vera að springa. Gallinn við það er að ég þarf alltaf að fara í umboðið til þess að láta skipta – strákarnir (hef aldrei lent á stelpu) á bensínstöðvunum treysta sér ekki í þessi ósköp og ekki kann ég þetta sjálf!! En í gær gaf ég mér tíma í hádeginu til þess að skjótast upp í umboð og láta snillingana þar bjarga þessu fyrir mig. Nú keyri ég um áhyggjulaus og þarf ekki að æfa í huganum afsakanir fyrir lögguna skyldi hún stoppa mig vegna ljósleysis – halllelúja!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home