miðvikudagur, desember 13, 2006

Í gær var ég stödd í húsi hér í borg þegar þangað kom rafvirki til þess að sinna smávægilegum verkefnum fyrir húsráðendur. Eitt verkefnið var að breyta einhverri tengingu hjá eldhúsborðsljósinu. Ljósið er afar stórt og í senn fögur hönnun og það mun víst líða á löngu þar til ég hef efni á að festa kaup á einu slíku. Nema hvað að umræddur rafvirki óskar eftir aðstoð minni til þess að taka ljósið niður sem ég og geri án nokkurra vandkvæða. (hjúkk!)
Stuttu síðar þegar breytingarnar hafa verið gerðar er kominn tími til að festa ljósakrónuna upp aftur. Ég klifra upp á borð á meðan rafvirkinn góði meðhöndlar krónuna varlega og er við það að fara að standa upp á borðinu líka þegar…………úr höndum hans rennur eitthvað, flýgur á gólfið og mölbrotnar …..og hvað mér brá……greyið rafvirkinn……og fegin ég að hafa ekki verið búin að snerta á ljósinu. Húsráðendur komu hlaupandi fram í eldhús með skelfingarsvip – væntanlega búin að sjá fyrir sér að rafvirkinn væri nú kominn í ómælda tímavinnu hjá þeim til að geta borgað upp ljósið. Sem betur fer var þetta ekki jafn slæmt og virtist í fyrstu. Það var eingöngu risastóra peran sjálf en ekki ljósakrónan sem skall í gólfið í þúsund mola og þegar ljóst var að tjónið var ekki meira voru margir í húsinu sem önduðu léttar. Ábyggilega sérstaklega rafvirkinn!!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home