föstudagur, desember 01, 2006

Jæja þá er ég búin að jafna mig eftir Herra Ísland og get því bloggað smávegis aftur
Loksins er öll hálkan og snjórinn farinn og ég get spænt upp malbikið og lagt mitt af mörkum í að auka svifryksmengunina í borginni. Það er alltaf gaman að tilheyra hópi sem tekið er eftir og hverra afrek eru tíunduð í fréttatímum fjölmiðla. Að auki eru nær öll ljós á bílnum mínum farin og ég er ábyggilega ekki vinsæl meðal annarra ökumanna í myrkrinu, akandi um borgina með eitt aðalljós í lagi…og jú stefnuljósin og eitt bremsuljós. Þarf augljóslega að koma þessu í lag hið fyrsta en þarf þá að koma mér í umboðið á vinnutíma þar sem starfsmenn bensínstöðvanna treysta sér ekki í verkefni eins og að skipta um perur í Peaugot!!!!

Fékk dýrindiskvöldverð í gærkvöldi í mötuneyti SPRON og Arion. Já það hljómar kannski furðulegur staður til þess að fara út að borða en elsku Rebekkan mín bauð mér að koma í vinnudinner sem staðgengill Dodda sem sat sveittur heima í próflestri. Þarna elduðu Friðrik af Friðriki V á Akureyri og samstarfsfólk Rebekku fyrir maka sína (og vini í mínu tilfelli) frábæran ítalskan mat, sungu Heims um ból (af því að það var næstum því kominn 1. des) og höfðu það kósí. Mér skilst að það sé Londonferð á döfinni hjá þeim næst og er farin að vona að Doddi verði upptekinn og komist ekki ;)

Á laugardaginn er svo hið árlega fjölskyldujólahlaðborð. Veislan er haldin í sal út í bæ (af því að við erum orðin svo mörg ) og þarf hver að leggja sitt að mörkum hvað varðar veisluföng. Síðast liðin ár hefur mitt verkefni verið að koma með nokkra lítra af gosi. Hvorki krefjandi né mjög streituvaldandi verkefni en býst við að húsmæðurnar í fjölskyldunni hafi ekki haft mikla trú á matreiðsluhæfileikum mínum sem er skynsamlegt af þeim. Verkefnið í ár er hins vegar ekki eins og hin árin. Á jólahlaðborðinu í ár fæ ég mun verðugra og ábyrgðarmeira verkefni. Nú árið 2006 á Erla María að mæta með salat!!! Já mér hefur verið treyst fyrir því að framreiða salat fyrir liðið og gæti ekki verið stoltari!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home