þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Ég er stoltur bíleigandi sem er svo sem ekki í frásögur færandi því það hef ég verið nokkuð lengi. Mér bara fannst svo skemmtilegt þegar ég komst að því að ég er dæmigerður stoltur bíleigandi borgarbúi – og er þess vegna enn á sumardekkjunum. Fyrir því eru fleiri en ein ástæða en þó er sú helst að maður er lagður í stöðugt einelti keyri maður um á nagladekkjum innan borgarmarkanna. Þegar vetra fer hlaðast upp auglýsingar á strætóskýli um hvað nagladekk séu ógeðsleg og hinir og þessir sérfræðingar eru teknir tali í fjölmiðlum hver á eftir öðrum, til þess eins að fræða okkur vitleysingana um skaðsemi nagladekkja. Í staðinn eigum við öll að keyra um á loftbóludekkjum eða jafnvel bara grófkornaheilsársdekkjum. En þar sem að ég á bara ansi ný og “góð” nagladekk dettur mér ekki að eyða stórfé í ný dekk á meðan. En af því að ég er svo viðkvæm fyrir yfirdrulli þá hef ég ekki þorað að skipta yfir á naglana enda hefur ekki verið ástæða til hingað til. Þar til á sunnudaginn – þá vaknaði ég og úti var hvít jörð og fullt af bílum spólandi í sköflunum. Litli blái stóð í stæðinu sínu umkringdur snjó og nágrönnum mínum sem voru í óða önn að moka úr bílastæðunum sínum (svo þeir næðu bílunum úr skúrunum. Minn þurfti að húka úti í hríðinni). Núh, þetta var svo sem í lagi af því að ég þurfti ekkert nauðsynlega að fara neitt á sunnudeginum en málin versnuðu á mánudagsmorgun. Að venju þurfti ég að mæta til vinnu og hafði svona eiginlega treyst á að snjórinn og hálkan hyrfu um nóttina og ég gæti keyrt alsæl á litla bláa um allar trissur á ný. Sú var ekki raunin svo ég neyddist til þess að taka leigubíl (of seint að pæla í hvaða strætó færi rétta leið). Ég hefði svo sem getað hringt mig inn seina í vinnuna en á ekki skóflu til þess að moka frá bílnum og þó ég byggi svo vel hefði ég ábyggilega bara spólað um á planinu og ekki komist lönd né strönd.
En allavegana þá var notalegt að taka leigubíl. Hann var hlýr og notalegur og ég þurfti ekki að hafa hugann við aksturinn – verst hvað þetta er djöfull dýr ferðamáti. Svo ég tók strætó heim. Það er ágætt að taka strætó, gaman að virða fyrir sér fjölbreytt mannlífið og upplifa hvernig almúginn ferðast á milli staða svona dags daglega. Já þetta var bara kósí………svona í tvær mínútur en þá þurfti ég að ríghalda mér í sætið og var nær dáin úr hræðslu svo óvarlega keyrði bílstjórinn – ég komst samt heil heim. Í morgun var snjórinn ekki enn farinn svo ég neyddist til þess að taka strætó í vinnuna og rölti óvenju snemma út og á biðstöðina. Á leiðinni hugsaði ég með mér hvað það væri nú hressandi að byrja daginn á smávegis göngu, anda að sér frísku lofti og liðka sig aðeins upp fyrir daginn. Ég vissi að ég gat tekið S1 og S3 á áfangastað og skv. Tímatöflunni (sem framvegis verður kölluð viðmiðunartaflan) þyrfti ég bara að bíða stundarkorn. Það var í góðu lagi enda ekki heldur svo kalt – ja miðað við seinustu daga allavegana. Í fjarska sé ég strætó og geri mig tilbúna….en nei úbbs þetta var nr. 3 ekki S3 svo ég beið lengur. Hmmmm jú þarna kom næsti strætó en djö. Hann var númer 6. Og áfram beið ég og á meðan stoppuðu tveir “vitlausir” vagnar til viðbótar. Ég var farin að drepast úr kulda og varð að dansa mér til hita. Ég dansaði fyrir framan skýlið og inní skýlinu, í kringum skýlið og aðeins út á götu. Svo ákvað ég að tékka hvort að mögulega færi einhver annar strætó þangað sem ég væri að fara og jú ALLIR vagnarnir sem ég hafði hunsað voru líka á leiðinni þangað!!!!!!!!! Aaaaaaaaaarrrrrrrrrrgggggg! Ég hefði svo sem getað sagt mér það sjálf þar sem ég var að fara á Lækjartorg – en ég hafði bara viljað vera 100% og taka strætóinn sem ég hafði tekið heim í gær. Og nú þarf ég að vera klukkutíma lengur í vinnunni en ég ætlaði – og svo taka Strætó heim!

Lífið er yndislegt

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home