miðvikudagur, mars 28, 2007

Skjótt skiptast veður í lofti!!
Veðurguðirnir virðast eiga erfitt með að ákveða hvort þeir eigi að miskunna vorið yfir okkur þessa dagana eða leyfa okkur að skafa aðeins meira á morgnanna. Í gærmorgun var ég komin í vorlegan kjól og var farin að hlakka til að fagna vorinu, sólinni og smáfuglasöngnum. Gleði mín breyttist fljótt í vonbrigði og kuldahroll þegar ég sá snjóbreiðuna úti fyrir. Ég gekk þungstíg aftur í svefnherbergið og skellti mér í föt við hæfi.

Siggi Stormur lofaði í gær að í dag myndi vorið byrja og það liti vel fram eftir vikunni. Jú ókei, í dag er sól og stillt en ég þurfti samt að skafa. Hef ákveðið að taka Sigga með fyrirvara og geyma kjólinn í fataskápnum enn um hríð.

------------------------------------------------------------------------------------------

Ég held að flestir séu núna búnir að uppgvöta hver kyns business við Björg erum að fara út í.
Nú hefur þingið lagt blessun sína yfir vændissölu og kaup – svona rétt eftir að hafa fordæmt klámráðstefnuna ógurlegu. Skemmtilega ósamkvæmir sjálfum sér þarna.
--- ekki það að þetta tengist á nokkurn hátt væntanlegri starfsemi okkar - við látum það eftir einhverjum öðrum!! En hvernig er það annars ætli það teljist sem auglýsing að skrá sig sem vændiskonu í símaskránni??!!

--------------------------------------------------------------------------------------------

Ég er komin með alveg sjúklega útþrá. Mig langar svo að komast eitthvert í sól og hita, sjó og sand, afslöppun og auðnuleysi. En það verður víst líklega ekki í bráð – býst við að sumarleyfið verði af skornum skammti svona víst ég er að skipta um starfsvettvang. Kannski ég nái samt að skjótast í eina borgarferð eða svo…….

fimmtudagur, mars 08, 2007

Ég stóð ekki við það að elda kjötbollur í gærkvöldi. Í staðinn borðaði ég restina af Subway-bátnum sem ég keypti mér í hádeginu. Ég afsaka mig með því að tengdapabbi var ekki heima og því minni ástæða til þess að halda uppi húsmóðurlegum tilburðum. Hafði nú þó dottið í hug að ryksug – en æ nei alveg rétt – ryksugan er ónýt!!

Hreiðar í Kaupthing veitti mér ekki meiri lukku en Hannes Smárason svo ég verð að bíða aðeins lengur með að láta byggja glerkúluhúsið mitt á Þingvöllum og heimsreisan verður eitthvað á “hold” líka.

Í gær átti ég erindi inn á Hótel Sögu /Radison SAS. Þar var komið upp nýtt skilti og það er greinilegt að Bændasamtökin taka stefnu sína um klámhundafrítt hotel mjög alvarlega.


En um það átti hins vegar ekki frásögn mín af erindi mínu þangað að vera. Þannig var mál með vexti að ég var að leita að trefli sem faðir minn hafði gleymt þar kvöldinu áður. Fyrst fór ég í móttökuna og spurði um trefilinn. Móttökudaman leitaði í óskilamunum en fann hann ekki og benti mér að spyrjast fyrir á barnum þar sem faðir minn hafði horft á fótboltaleikinn. Þangað fór ég og spurði þjóninn um trefilinn umrædda (á íslensku að sjálfsögðu) en þjónninn skildi ekki neina íslensku og bað mig um að snara spurningu minni yfir á ensku. Það var alveg sjálfsagt enda tiltölulega einföld spurning – ég þurfti þó samt að endurtaka hana þrisvar og með leikrænum tilburðum og vísunum í minn eigin trefil í síðasta skiptið. Þjónninn hristi höfuðið og sagðist ekki hafa séð hann og benti mér á að tala við móttökuna. Ég er enn ekki viss um að hann hafi skilið um hvað ég var að tala. Mér er alls ekki í nöp við það að útlendingar afgreiði mig jafnvel þó ég þurfi að tala ensku – en þegar hins vegar það er ekki nóg til þess að ég geti nýtt mér þjónustuna þá er ég farin að setja spurningamerki við ráðningu viðkomandi starfsmanns. Að vísu hefur væntanlega ekki verið krafist af manninum að hann gæti staðið í umræðum um týnda trefla – kannski fannst þeim bara nóg að hann skildi hversu marga bjóra fólk vildi fá!!!

miðvikudagur, mars 07, 2007

Íbúðin mín er farin að taka á sig nýja og betri mynd. Loksins er komið upp ljós yfir stofuborðinu og á svefnherbergisganginum, sandblásið plast í gluggana á baðherberginu og svo er komið gat á stofuvegginn!!!!! (Mér hefur verið lofað að það muni gera gagn) Stofan er líka öll út í steypuryki og ryksugan mín er ónýt. Fleiri umbætur munu eiga sér stað á næstu dögum og vonandi án frekari skemmda á tækjabúnaði heimilisins.
Þið megið ekki misskilja mig samt…það er ekki ég eða Villi sem erum svona ótrúlega framkvæmdaglöð og dugleg þessa dagana – heldur er tengdapabbi í heimsókn og þegar tengdapabbi er í heimsókn eru breytingar óhjákvæmilegar.
Ég er líka búin að vera duglegri við eldamennskuna síðan hann kom – alveg búin að elda alvöru mat tvö kvöld í röð!! Stefni á þriðju kvöldmáltíðina í kvöld….kannski ömmukjötbollur með tilheyrandi. Þetta þykir kannski ekki merkilegt afrek í augum flestra en heima hjá mér er þetta ekki sjálfgefið, af ýmsum óuppgefnum ástæðum (aðallega vegna þess að þær eru ekki mjög merkilegar).

Í dag er þrefaldur pottur í Víkingalottó og mig dreymdi ekki Hannes Smárason en ég hitti Hreiðar í Kaupþingi í gær og hver veit nema það veiti mér lukku í dag!!!!

mánudagur, mars 05, 2007

Það leystist nokkuð vel úr valkvíðahelginni minni. Ég dreypti á rauðvíni með Lóu og Örnu á föstudagskvöldið og horfði á Gettu Betur og X-factor. Úrslitin voru skandall í hvortu tveggja en rauðvínið gott. Á laugardeginum mætti ég í heitar bollur og hummus til Bjöggu og við skelltum okkur síðan á síðdegistónleika með Ragga Bjarna, Eivöru og Sinfó – í boði Landsbankans. Við komuna fengum við nellikur í barminn og boðið var upp á rauðvín og hvítvín fyrir sýningu og í hléi…..allt voða fancy. Tónleikarnir voru ótrúlega skemmtilegir og enn og aftur sannfærði Eivör mig um að hún er með betri söngkonum seinni tíma enda fékk ég gæsahúð hvað eftir annað. Raggi stóð svo að sjálfsögðu fyrir sínu og mér var hugsað til gamals vinar míns sem að þótti (og þykir væntanlega enn) Raggi vera tónlistargoð Íslands!!


Seinna um kvöldið bauð svo Bjögga til fámenns en góðmenns teitis þar sem þrír sjaldséðir hrafnar voru meira að segja meðal gesta: Daníel sem hefur legið í dvala svo vikum skiptir


Himmi sem hefur verið upptekin af Nördafótbolta, óléttu, íbúðarbreytinga og nýrri vinnu


og síðast en ekki síst Rebekka mín sem hefur verið upptekin af því að skapa sér nafn í bankageiranum og græða peninga fyrir þá sem eiga meira af þeim en ég!!Tekist var á um málefni eins og mikilvægi (hjá sumum lítilvægi) fæðingarorlofs, okur bankanna (hjá sumum eðlilegir og óhjákvæmilegir viðskiptahættir) og svo hver væri best/ur í sing star!!!

Sunnudagurinn fór svo í svefn og tiltekt. Ég fékk svo að nýju að vera staðgengill Dodda þegar Rebekka bauð mér út að borða á Pizza kompaníinu. Ef þetta fer að vera venjan þegar Doddi lætur sig hverfa úr bænum þá mætti hann alveg gera það örlítið oftar ;)

föstudagur, mars 02, 2007

Ný helgi – nýtt líf…..
….eða ekki! Líf mitt mun varla taka miklum stakkaskiptum þessa helgina frekar en aðrar helgar….hún er samt svolítið plönuð með nokkrum spurningamerkjum þó.

Dæmi:
Í kvöld ætla ég að horfa á Gettu Betur (MA hothothot vs. verzló notnotnot) og ömurlega X-factor þáttinn (bara af því að ég fékk mér áskrift nær eingöngu til að sjá þættina – waste of money) heima með Villa junior og Villa senior EÐA heima hjá Lóu.

Yfir þessum þáttum ætla ég að drekka bjór EÐA rauðvín (fer eftir því hvar ég horfi)

Á morgun ætla ég að skella mér á sérstaka boðssýningu á Sinfó-Raggi Bjarna og Eivör Páls með henni Örnu EÐA einhverjum öðrum skyldi hún beila á mér.

Helginni fylgja fleiri EÐA en ég held ég láti þetta duga enda dæmið eingöngu til vísbendingar um þann valkvíða sem fylgir helginni.

PESTARBÆLI
Ég er blessunarlega búin að halda mér lausri frá pestinni sem herjað hefur á heimili mitt sl. viku. Villi minn er búinn að liggja í rúminu alla vikuna. Ég hef nú svosem ekki verið upp á mitt albesta en tekist að sleppa vel.

EINELTI Á VINNUSTAÐ
Uppsögn mín í vinnunni er strax farin að hafa neikvæð áhrif. Hér hafa tár fallið og aðrir hótað uppsögnum en það var svo í dag sem að hópurinn hefur tekið sig saman um að útskúfa mér. Hér sat ég ein og yfirgefin í allan morgun á meðan aðrir fengu að vinna hópavinnu á starfsdegi. Ég er greinilega ekki talin geta tekið þátt í að móta stefnu og vinnulag hér víst ég er að hætta!! Síðan var pantaður matur í hádeginu og alllir borðuðu saman…..nema ég…..ég fékk að plokka í kalda afganga þegar klukkan var langt gengin tvö og þeir fáu sem enn voru eftir við matarborðið þá forðuðu sér fljótlega frá borðum með afsökunum um að þeir þyrftu nú að fara að vinna. Eftir sat ég ein með mogganum og leið eins og ég hefði lent í öðru sæti í júróvisjón. Í apríl er aftur starfsdagur….þá mun mannskapurinn fara í bústað, slaka á í heitum pottum og sötra rauðvín svona þegar ekki er verið í verkefnavinnu. Geri fastlega ráð fyrir að ég verði skilin eftir við skrifborðið mitt – einhver þarf jú að halda opnu!!!