þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ófagra veröld var skemmtilegt leikrit….skrítið en skemmtilegt. Alveg brjálað action í fyrri hluta og mikið hlegið. Seinni hlutinn mun rólegri og dramtískari en góður á sinni hátt. Myndi samt ekki mæla með því við alla – það er of spes fyrir það!!!

Fór í bæinn á laugardagskvöldið. Endaði með Rósu á Sirkus en þangað hef ég varla komið frá því í tíð Ingu Heiðu eða um það bil. En við Rósa þurftum að bíða ansi lengi í röð til þess að komast inn. Svo sem skiljanlegt þar sem að við erum ekki Gabríela Friðriksdóttir, Björk, meðlimir í Maus, Sigurrós eða nokkurri annarri þekktri eða óþekktri hljómsveit sem hleypt er fram fyrir röðina. Nú ætla ég ekki að agnúast út í fólk sem treður sér fram fyrir aðra í nafni frægðarinnar eða vinskaps við dyravörðinn. Slík tækifæri gríp ég oftast fegins hendi. Mér varð bara spurn miðað við fjöldann sem fékk að fara inn án þess að bíða sekúndu í röð, hvort að dyravörðurinn hefði hleypt okkur Rósu fyrr inn hefði ég sagt honum að ég hefði nú einu sinni verið í lúðrasveit og verið djöfull góð. Síðan hefði ég getað trommað “Eye of the tiger” á hurðina…svona svo hann myndi kannski trúa mér ---- ahhhh prófa það næst!!

En að fréttum gærdagsins:
Margrét Sverrisdóttir búin að segja sig úr Frjálslynda flokknum!! Ég er í engum vafa um að það hafi verið rétt ákvörðun. Magnús Þór og Guðjón Arnar eru búnir að ganga fram með slíku offorsi og yfirgangi að óbragð var af. Margrét á betra skilið – aðrir flokksmenn eiga betra skilið og síðast en ekki síst þarf þjóðin ekki á mönnum eins og þeim að halda. Ég hef ekki trú á öðru en að fylgið rjúki niður á við eftir þennan skandal og kemur þá vel á vondan!!

Svo virðist sem flensan og aðrar pestir séu að gera út af við landann þessa dagana. Alla vegana hérna í vesturbænum þar sem annar hver starfsmaður er frá vinnu vegna eigin veikinda eða barna. Sumir skólarnir eru hálftómir og varla er ástandið skárra á leikskólunum. Mér hefur ekki ennþá tekist að næla mér í í þetta vesen enda svo sem ekki á stefnuskránni. Hef litla löngun í að liggja viku eða tvær í bælinu með hita og hósta – jafnvel þó mér þyki lúrinn góður þá er þetta ekki þess virði!!!

föstudagur, janúar 26, 2007

Í gær þegar ég vaknaði fannst mér vera föstudagur. Það voru því mikil vonbrigði þegar ég mætti í vinnuna og mér tjáð að það væri bara fimmtudagur. Í dag er þess vegna hinn umræddi föstudagur og þar af leiðandi finnst mér þessi vinnuvika hafi verið degi of löng. Af því tilefni ætla ég að reyna að vinna eins lítið og ég mögulega get í dag.


Í kvöld ætla pabbi, Helena og Soffía systir að koma í mat og svo ætlum við að bjóða þeim í leikhús að sjá “Ófagra veröld”. Það er svo gott fyrir sálina að vera menningarlegur af og til.

Leikurinn er svo á morgun. Kominn tími til að taka Slóvenana í bakaríið. (nota frekar saklausan frasa af virðingu við slóvensku tengdafjölskylduna mína  ) Mikið ógeðslega verður nú gaman ef við komumst nú alla vegana í 8 liða úrslitin. Og ef við komumst í úrslitaleikinn ætla ég að þekja stofuna mína með plaggötum af Fúsa, Óla Stef. Og Guðjóni Vali……og mögulega einhverjum fleirum landsliðshetjum, skála í kampavíni og dansa fram á rauða nótt!!!

Nú skilst mér að Tom Cruise sé orðinn einhvers konar spámaður eða Jesú Vísindakirkjunnar……..AHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA………..svoooo sorglegt og svo mikil geðveiki. Einu sinni dýrkaði ég Tom Cruise. Þá var hann sætur og saklaus og ég hafði ekki hugmynd um að hann væri svona lítill (ekki það að ég sé með fordóma fyrir smávöxnu fólki enda ætti ég mér þá ekki viðreisnar von gegn sjálfri mér). Núna fer hann óendanlega mikið í taugarnar á mér. Nú er hann bara lítill, heimskur og hættulegur sjálfum sér og öðrum. Greyið Suri að eiga hann fyrir pabba.


Kiddi!!! Ertu ekki á leiðinni suður??

föstudagur, janúar 19, 2007

Ég vil hér með óska öllum bændum innilega til hamingju með daginn. Flott að hafa svona sér dag fyrir fólkið sem stritar í sveitinni svo að við getum fengið mjólk út á Cheeriosið, hamborgarahrygg um jólin og lambalæri á Sunnudögum. Ef ég þekkti einhvern bónda hér í nærsveitum myndi ég pottþétt gefa honum blóm og jafnvel súkkulaði með..svona í tilefni dagsins!!!

Í dag byrjaði líka Þorrinn. Við stelpurnar í vinnunni gáfum strákunum okkar svið, bjór og blóm í tilefni dagsins. Aðallega vegna þorrans en einnig vegna þess að þeir eru svo miklir bændur í hjarta sínu og sálu. Ég ætla líka að fá mér svið og rófustöppu - geymi bjórinn þar til í kvöld!!

Góða helgi og gleðilegan þorra (ekki pabba þinn Björg)

The Early one

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Í gær var merkur dagur. Í gær horfði ég ekkert á sjónvarp…..kveikti ekki einu sinni á sjónvarpinu. Slíkt þykir afrek þegar ég á í hlut – og ekki síður það að ég vann til 19:30 í gær og var mætt í ræktina kl. 20:00 þar sem ég og Arna hristum af okkur slenið í hálfan annan tíma. Ógeðslega duglegar. Ég uppskar reyndar massa blöðru á ilina en er nú búin að redda því með gervihúð svo ég geti haldið áfram að vera dugleg í dag. Og það sem meira er þá leit í í bókartetur uppí rúmi eftir öll átökin. Megnaði nú ekki mikið meira en einn og hálfan kafla því þá var ég gjörsamlega uppgefin. Í morgun var ég svo dauðþreytt en tókst að hafa mig á lappir með herkjum. Bæði vegna þreytunnar en ekki síst vegna strengja um allan líkamann!!

En það er þýðir ekkert væl og áfram skal halda……..

mánudagur, janúar 15, 2007

Hef ekki haft tíma til að blogga í vinnunni á nýju ári. Er búin að vera að reyna að vera samviskusöm þessa fyrstu tvær vikur ársins og slóra ekki í svoleiðis vitleysu. Svo er ég ekki enn komin með netið heim sem er óþolandi. Búin að bíða í marga mánuði eftir ljósleiðaratengingunni minni….hún á að vera sérdeilis hraðvirk sú tenging en miðað við hvað það tekur langan tíma að koma henni í gagnið er ég farin að efast um að það muni ganga eftir. Þeir eru samt löngu búnir að koma fyrir öllum tækjabúnaði og leiðslum sem til þarf hjá okkur …..það tók 4 mánuði og nú bíð ég bara eftir að þeir ýti á “play” eða “on” eða einhvern annan ágætistakk til þess að starta herlegheitunum. Búin að bíða eftir því síðan í ágúst – rosalega er ég fegin að dvd-spilarinn minn er ekki svona lengi í gang!!!!


Arnan mín átti afmæli í gær og er nú komin á vafasaman aldur rétt eins og ég sjálf. Mér finnst voðalega gott að þurfa ekki að standa lengur í þessu ein….nú á ég þjáningarsystur – já eða samhryggingarkonu eins og Svanhildur mín orðaði það svo skemmtilega á menntaskólaárunum – orðin rugluð af allri búsetunni í Noregi ;)

Arna tók þó aldursaukningunni með meiri sóma en ég og bauð til örlítilla veisluhalda heima hjá sér…..þó eingöngu fáeinum, sérvöldum konum. Það var því fámennt en alveg einstaklega góðmennt. Enduðum á Óliver og vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að fá sæti og borð þó að staðurinn væri fullpakkaður. Tókst líka að fá leigubíl heim eftir smávegis blekkingar og nýtingu á þekkingu staðhátta í þingholtinu.

Verð að tilnefna þær stúlkur sem bera ábyrgð á eftirminnilegustu atvikum kvöldsins:
Rósa María – sem tókst að eyðileggja húsmuni afmælisbarnsins á undraverðan hátt 
Beta (vinkona Rósu) – sem tókst að fljúga með miklum tilþrifum á borðið okkar og hreinsa með því af borðinu alla drykki, glös og kertastjaka….NEMA þá sem við áttum og fær hún hrós fyrir það!!!

Að lokum fáum við mynd af afmælisbarninu

mánudagur, janúar 01, 2007

GLEÐILEGT ÁRIÐ OG TAKK FYRIR ÞAU GÖMLU