miðvikudagur, september 27, 2006

Ég hef ekki nennt að blogga upp á síðkastið og fyrir síðkastið var ég veik í viku. Lá heima í rúminu, svaf og lærði að lesa aftur. Það er varla að ég hafi lesið staf í skáldsögu síðan í byrjun aldarinnar en það var þá sem ég seldi sjónvarpinu sálu mína sem mér skilst af fróðu fólki að sé næstum jafn slæmt og að gera samning við djöfulinn. Ég veit nú ekki um það en slæmt er það þó. Þarna í veikindum mínum upplifði ég aftur gleðina og spennuna og hvernig ímyndunaraflið fer á flug þegar maður les bækur. Og ég er strax farin að hlakka til að lesa allar bækurnar sem að mig hefur langað að lesa síðustu ár en ekki komið mér í.

Þegar ég loksins frískaðist lagðist Villi svo í rúmið og þar liggur hann enn þrátt fyrir hetjulega tilraun í morgun til þess að fara í vinnuna. Þegar hann var hálfnaður á þessari 5 mínútna göngu fékk hann svima og tilheyrandi og rétt náði að skríða heim aftur. Litla greyið mitt.

Annars hefur margt smávægilegt verið á döfinni síðustu vikur. Fór t.d. á Nick Cave tónleikana. Var búin að hlakka mikið og lengi til en varð fyrir miklum vonbrigðum. Mér hins vegar til óvæntrar ánægju skemmti ég mér feikivel á BO tónleikunum sem pabbi bauð mér á. Já svona getur nú heimurinn verið skrítinn ?

Svo er ýmislegt spennandi í nánustu framtíð.
Arna er að byrja í nýrri vinnu (Til hamingju mús),
Himmi KF Nörd #5 er að fara að spila á móti meistaraflokki karla FH og þar mun ég verða með hvatningaspjöldin og hvatningaröskrin á hreinu.
Ég skipti um vinnustað í 2 mánuði
Soffía systir vinnur þrekmeistarann öðru sinni (það er náttúrulega ekki spurning)
Ég fer að byrja í ræktinni
Afmæli hjá Ástríði Helgu litlu frænku minni á Sunnudaginn
Haustfagnaður hjá ÞOR eftir rúma viku
Góð rauðhærð vinkona mín á von á sér


Í ofangreindri upptalningu er ein staðreyndarvilla. Hver er hún?


(Búin að bæta inn nýjum linkum á gott fólk: ingveldi, sverri og heiði)

fimmtudagur, september 14, 2006

THANK GOD IT´S OVER!!!
Mikið guðs lifandi er ég fegin að RockStar er búið. Nú geta Íslendingar snúið sér aftur að hinu daglega, sorglega lífi og lagt súperstjörnudraumana á hilluna. Ekki það að ég hafi snúist gegn þjóðrembunni sem hefur einkennt landann síðustu vikur, mér fannst ótrúlega gaman að Magni skyldi hafa komist svona langt þó að það væri bara vegna þess hvað við (nema ég) lögðum mikið á okkur til þess að fleyta honum áfram. Ég er bara svo ánægð að geta farið að sofa á skikkanlegum tíma á þriðjudögum og miðvikudögum án þess að skammast mín fyrir að hafa ekki vakað og staðið við bakið á "okkar" manni. Ég er líka fegin að þurfa ekki lengur að reyna að sannfæra alla um hvað Lukas er í rauninni yndislegur og á ekki skilið að vera kallaður skunkurinn. Og síðast en ekki síst verður mikill léttir að fá samstarsfólkið útsofið í vinnuna og að vera ekki að "trufla" það þegar það er að kjósa á Hawai og Ástralíutíma!!!

miðvikudagur, september 13, 2006

HAMINGJUMORGNAR MEÐ CAPONE
Í tvo mánuði hef ég verið haldin þeirri trú að Andri og Búi hefðu verið reknir af X-FM. Í kjölfarið fór ég að leita að nýjum þætti til þess að hlusta á á leiðinni í vinnuna. Fyrst prófaði ég morgunþáttinn á Kiss-FM....en þvílíkan og annan eins viðbjóð hef ég sjaldan hlustað á svo að ég færði mig yfir á FM-957 sem að rétt sleppur fyrir horn. Það var svo í morgun sem að ég grét hamingjutárum þegar ég stillti á X-FM og heyrði þessar tvær undurfögru raddir - þarna voru þeir ljósin mín Andri og Búi mættir aftur.....líklega hafa þeir aldrei farið neitt en ég hef hins vegar eytt mikilvægum mínútum í að hlusta á Súber í staðinn fyrir Capone. Ég hef því ákveðið að vakna fyrr á morgnanna og keyra lengstu leið í vinnuna til þess að vinna upp tímann með strákunum mínum!!
Í tilefni dagsins fáum við myndir:

þriðjudagur, september 12, 2006

Í morgun þegar ég vaknaði fann ég hjá mér þessa löngun sem kemur stundum yfir mig að vera pæja í vinnunni. Pæjulöngunin var það sterk að ég skellti mér í stutt pils og stígvél...ógeðslega töff! En af því að það var pínu kallt fór ég í lopapeysu og lopavettlinga við - örugglega skiptar skoðanir um hversu töff það er. En ég er að fíla það að vera svona "þjóðleg" pæja og þegar ég speglaði mig í hádeginu laust niður í huga minn hvað ég ætti að fá mér í hádegismat. Ég brunaði í Melabúðina og voila:


Reyndar fékk ég mér aðeins hálft kindahöfuð og rófustöppu með....en mikið ógeðslega var það gott!

mánudagur, september 11, 2006


Komin heim úr afslapplevelsi hjá mömmu og Gumma þar sem var stjanað við mig á tá og fingri. Gerði varla annað en að borða og liggja á meltunni – yyyyndislegt! Hefði nú gefið mikið fyrir að stoppa lengur en vinnan kallaði svo ég keyrði heim í gær í ömurlegu veðri alla leið – mígandi rigningu og brjáluðu roki. Til að skemmta sjálfri mér í þessum leiðindum hlustaði ég á klassatónlist og song hástöfum með allan tímann og uppskar smávegis hæsi – en það er náttúrulega bara töff!!!

Þegar ég var svo að renna yfir borgarmörkin fékk ég þessa óstjórnlegu löngun til þess að kíkka á kaffihús og helst tónleika í leiðinni – en ég vissi ekki um neina tónleika og nennti svo ekki út þegar ég var loksins komin heim. Spurning um að bæta úr því í vikunni.

Minni á myndasíðuna miklu þar sem ég er búin að bæta inn myndum frá síðustu tveim helgum.

Svo í lokin sendi ég “týnda vininum” afmæliskveðjur í tilefni gærdagsins og þrefalt húrra fyrir því!!

föstudagur, september 08, 2006

Þá er haustógeðið formlega hafið með roki og rigningu. Það eina sem bjargar mér frá að sökkva í þunglyndi er að það er þokkalega hlýtt og svo er komin helgi. Ég er samt strax farin að kvíða því þegar verður koldimmt á morgnana þegar ég fer í vinnuna og svo aftur orðið myrkur þegar ég fer heim á daginn…….sá tími fer alvega afskaplega mikið í taugarnar á mér – og fólk sem getur á slíkum tímum hoppað brosandi fram úr rúminu eins og ekkert sé fer líka í taugarnar á mér!

Annars er dagurinn í dag alveg einstaklega merkilegur dagur vegna þess eins að uppáhalds systir mín á afmæli í dag og er 4x4x2-1 árs gömul daman. Til hamingju Fía mín og eigðu góðan dag.

Vona að þið hin eigið svo góða helgi – ég er farin norður til Múttu í afslöppun og notalegheit.