fimmtudagur, september 29, 2005

THE APPRENTICE SÖNGLEIKURINN Á BROADWAY!
Hver vill með?
Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum að Donald Trump er með mikilmennskubrjálæði á háu stigi. Hann getur allt, á allt, veit allt, þekkir allt, fær allt og má allt - þetta minnir jafnvel á Baugs-fjölskylduna! Nema hvað...hr. Trump er ekki svo óheppinn að búa á Íslandi þar sem það þykir stórglæpur að hafa allt þetta allt sem hér getur að ofan. En hver veit nema Jón Ásgeir láti setja upp "Stóra-Baugsmálið söngleik" á Broadway Íslands? Ég myndi allavegana frekar fara að sjá það heldur en The Apprentice söngleikinn! Nema kannski ef að Trump byði mér út að sjá hann, ég fengi að ferðast um í limmósínu, borða á bestu veitingastöðunum, versla frítt í hátískuverslununum og gista í Trump-turninum - verst (eða ekki verst) að þá yrði Bush forseti að vera fallin frá (annað hvort í orðsins fyllstu merkingu eða embættinu)!
Tímabundna móðuhlutverkinu er lokið í bili. Tilraunin tókst framar vonum þrátt fyrir svefnleysi á stundum. Held að Villi minn hafi orðið svoldið hræddur til að byrja með enda ekki á hverri nóttu sem litlir stubbar læðast upp í rúmið hjá okkur. En hann jafnaði sig og var jafnvel farinn að sofa með bæði augun lokuð í endann. Stubbunum fannst samt eitthvað erfitt að muna hvað Villi hét og kölluðu hann Valla í gríð og erg enda miklir vinir hans Valla pípara og fannst eitthvað þægilegra að láta þá bara heita það sama! Þetta var ágætis reynsla áður en að maður leggur sjálfur í alvöruna en er þó mjög fegin að geta sofið lengur en til sex á morgnanna!

Horfði á fyrsta þáttinn í nýju LOST seríunni í gær --- mjög spennandi - vona að þáttur 2 fari að koma á netið - þeir sem vilja vita nánar hvað gerðist hafi samband við mig!

Annars má ég ekki vera að þessu núna........hvað er samt planið um helgina?

mánudagur, september 26, 2005

ókei ég er að reyna að troða inn helv. myndum og það er ekki að takast - ég er gjörsamlega tölvulega fötluð
Mæli með að karlmenn og konur sem eiga í samböndum við karlmenn kynni sér mjög áhugavert námskeið. Sjá hér

sunnudagur, september 25, 2005

Heimili mitt er loksins orðið fullgilt í íslensku samfélagi - hingað til hef ég skammast mín fyrir þennan ákveðna skort og liðið illa yfir því að bjóða fólki heim til mín vegna þessa. En nú er Flyðrugrandi 12 orðið nýtísku pleis og mun fagna hverri heimsókn frá nýtísku fólki - yes you know what I´m talking about people............you know what I mean.....yeyeyeye......I´m online at last!!!!
I´ve been klukked by Lóa! Í tilefni af því mun ég koma á framfæri fimm einstaklega merkilegum staðreyndum um sjálfa mig:

1. Ég er forfallin kókisti og hef verið síðan í grunnskóla - ég er samt með ofnæmi fyrir koffeini og þurfti því einu sinni að hætta að drekka kók í ár til þess að drepa niður ofnæmiseinkennin. Þegar það hafði tekist byrjaði ég aftur að drekka kók!

2. Ég var einu sinni afar efnileg íþróttamanneskja og þá sérstaklega í körfubolta - í dag er ég það örugglega líka en þyrfti kannski að byrja að hreyfa mig til þess að sanna það.............kannski seinna!

3. Ég er haldin nokkrum fáránlegum áráttum eins og að þurfa að renna sokkum á milli allra tánna áður en ég klæði mig í þá!!!!! Ókei þetta er svo fáránlega fáránlegt að ég þori ekki að segja frá hinum.

4. Peningagræðgi mín uppgvötaðist þegar ég var nýorðin fjögurra ára en þá hófu foreldrar mínir að kenna mér að lesa - ég var meira en til í það........ef að ég fékk krónu í hvert skipti kennsla fór fram!

5. Ég fíla Gísla Martein

Ég klukka séra Hildi, Himma krimma og Stulla

fimmtudagur, september 15, 2005

Helgin nálgast og lítur út fyrir að verða jafn viðburðalítil og síðustu helgar - hvað er eiginlega að gerast? Aldrei fyrr á ævi minni hef ég verið jafn mikill félagsskítur og nú - þetta er spurning um að rífa sig upp á rasshárunum og byrja að blanda geði við mannfólkið á ný. Kannski kíki ég í partý, eða treð mér í póker hjá Jóa Króa, gæti líka farið í keilu og pool ef einhver er til í það, gæti líka gert eitthvað þroskandi og heilbrigt eeeeeeen held ég sleppi því enda ekki minn stíll ;o)

Mér var reyndar boðið í eitthverja borgarstjóraathöfn á morgun þar sem fram fer afhending samgöngublómsins (wtf datt þetta nafn í hug) - ég afþakkaði pent og sagðist hafa mikilvægari hnöppum að hneppa....sem er lygi en hvað með það!

Í næstu viku flyt ég í Fossvoginn - tímabundið - verð ráðsett, útivinnand, tveggja barna húsmóðir í einbýlishúsi og á fjölskyldubíl! Þetta er svona ný tilraun eins og þegar grunnskólakrakkar eru látnir fara heim með dúkku sem lætur eins og ungabarn nema nú er hægt að fá að prófa allt heila klabbið - hvort maður höndli pressuna og allt sem fylgir hefðbundnu fjölskyldulífi. Heppnar fjölskyldur fá svo frí á meðan frá börnum og daglegu streði!!!
Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég og Villi klárum okkur vel í þessu - enda er helgin ekki innifalin :o)

En mig langar að lýsa yfir reiði minni í garð RÚV þessa dagana fyrir að sýna eldgamla STIKLUR þætti þegar mitt ástkæra Leiðarljós á að vera í sjónvarpinu!!!!!!! Það finnst mér djöfuls yfirgangur og frekja - ég meina kannski er einhver góð ástæða fyrir þessu en ég myndi þá vilja fá að vita hana!

þriðjudagur, september 13, 2005

Jólagjafakaup yfirstaðin – kortaskrif í vændum

Já kæru vinir, þetta árið var ég hagsýn og framsýn og hef lokið því að kaupa nær því allar jólagjafir þetta árið. Eins og margir vita fórum við Villi til Köben síðustu helgi....eða frá fimmtud. – þriðjud. Og kláruðum þetta af í hvellinum – það er þvílíkur léttir að vita að þetta er frá og að við munum mögulega eiga einhvern pening í desember annað en mörg önnur árin!

Það fór samt ekki allur tíminn í jólagjafaleiðangur enda sól og hiti allan tímann ...mmmmmm, það var því ekki leiðinlegt að fara úr kuldaúlpunni hérna í Reykjavík yfir í pils og ermalaust í Danaveldi!! Svanhildur mín sótti okkur á flugvöllinn á einstakri glæsikerru og brunaði með okkur á Örestad kollegíið þar sem íbúðin hennar Ídu beið okkar. Ætluðum að gista hjá Svanhildi og Klaus en heimsókn Bjöggu og Ingós helgina áður hafði gert manninn fárveikan (já sumir hafa þessi áhrif!!;o)) Ída var svo góð að lána okkur íbúðina sína í staðinn – Takk Ída mín! Á laugardeginum fluttum við svo yfir til Swanie og Klaus þar sem Klaus var stiginn upp úr veikindunum. Til að fagna því buðu þau okkur í dýrindis steik og tilheyrandi – tilheyrandi þýðir kartöflur, salat, sósu, rauðvín, mojito, bjór, eftirrétt, meiri mojito, undarlega jarðaberja – vodka – tequila blöndu og svo meira rauðvín. Eins og gefur að skilja og vill oft verða fylgdi í kjölfarið töluverður hávaði, mas, söngur, dans og luftgítartónleikar – við skemmtum okkur mjög vel en sömu sögu var ekki að segja um unga manninn á neðri hæðinni. Á ákveðnum tímapunkti kom hann og barði næstum niður hurðina og fyrir framan stóð hann titrandi af bræði og missti sig við húsráðanda. Þessi maður er ekki á lífi ennþá og mun sjálfsagt finnast niðurbútaður í húsasundi í Sydhavn.........hahahahahahahahaha!

Við heimsóttum einnig dýragarðinn þar sem ég tók þátt í fílreiðakappi og steiktramaurakappáti. Síðar lá leiðin í Tívolíið með túrpassa og þar fór ég mína fyrstu ferð í rússíbana sem fer á hvolf – það var gaman, reyndar missti ég annan skóinn...hann er glataður að eilífu! Ég nýtti passann að sjálfsögðu mjög vel og fór í öll þau tæki sem þess voru verð....í sum fór ég ein......af því að ég er hugrakkari aðilinn í sambandinu ;o)

Ísafold mætti svo í síðustu kvöldmáltíðina okkar á Jensens Böfhus....mmmm....nýkomin úr örmum unnustans á Íslandi....það kallaði á djúsí steik og bernaise sem er allra meina bót (ekki satt Arna?)

Ferðin var semsagt frábær, yndisleg, æðisleg og hefði mátt vera miklu lengri! Elsku Svanhildur, Ída og Klaus – þúsund þakkir fyrir gestrisnina og allt annað.
P.s. eru þeir búnir að finna nágrannann?