mánudagur, ágúst 29, 2005

Þá er ég komin aftur heim úr enn einu brúðkaupi sumarsins – síðast voru það Lóa og Jóhann, nú voru það Jóhanna og Jóhann – ég valdi nefninlega þema fyrir sumarið það var að fara eingöngu í brúðkaup hjá mönnum sem heita Jóhann og það hefur gengið ágætlega eftir! Reyndar hét fyrsti brúðguminn Þorsteinn en hann lítur út eins og Jóhann í mínum augum svo það slapp fyrir horn :o) Einu brúðkaupinu sleppti ég svo að sjálfsögðu þar sem að brúðguminn var langt frá því að heita Jóhann og hafði fátt til að bera sem prýðir að meðaltali góðan Jóhann!

Næsta sumar verður tileinkað brúðinni og ég mun eingöngu sækja brúðkaup þar sem að brúðurin hefur uppahafsstaf A eða B.....

Annars var þetta snilldar brúðkaup hjá þeim hjónakornum – það var stuð bæði í kirkjunni og veislunni – svo mikið stuð að ég er með strengi eftir allan dansinn! Kata H þjónaði til borðs og stóð sig svo vel að ég held að ég hafi aldrei verið með tómt glas allt kvöldið – og samt drekk ég hratt ;o) Hún byrjaði reyndar veisluna á því þruma kampavínsglasi í gólfið.....held hana hafi bara vantað athygli!!

Nú fara næstu þrír dagar að byggja upp spennu og eftirvæntingu eftir fimmtudeginum en þá ætla ég að taka sumarfríið mitt og heimsækja Kaupmannahöfn þannig að ef að þið verðið staðsett í köben frá 1. – 6. september endilega látið mig vita!

föstudagur, ágúst 26, 2005

Nú styttist í að nemendur í félagsvísindadeild setjist á skólabekk að nýju – undanfarna daga hafa metnaðarfullir og samviskusamir nemendur staðið í bóka – og ritfangainnkaupum af miklum móð, sumir hafa jafnvel fengið sér tölvukaupalán og fjárfest í eins og einni fartölvu svo að námið verði nú enn skipulagðara. Þetta árið er ég ekki í þessum hópi - reyndar hef ég svo sem aldrei tilheyrt þessum hópi þar sem að ég er ekki metnaðarfull og samviskusöm en þetta árið liggur annað að baki. Ég tilheyri nú hópi hins vinnandi manns, vakna árla morguns, fer í vinnuna og skila mínum átta til tólf tímum og uppsker laun fyrir erfiðið. Varla sanngjörn laun en ég safna a.m.k. ekki frekari skuldum á meðan. Þegar ég var í háskólanum svaf ég fram að hádegi, lagði mig seinni partinn og skilaði litlu sem engu til samfélagsins. Já það eru breyttir dagar þetta haustið og í fyrsta skipti í langan tíma hlakka ég til vetursins enda hluti af stórskemmtilegum vinnustað! Þess má hins vegar geta að ég er þó enn háskólastúdent þar sem ég ætla að reyna að pára niður eitt stykki B.A. ritgerð í vetur – fyrir það borgaði ég 45.000 krónur...það sveið!

Annars er það að frétta að ég á flug til Akureyrar kl. 17 í dag – vildi samt alveg fara bara á morgun......samstarfsfólkið er á leiðinni á barinn eftir vinnu og ég vildi glöð kíkka með. En Árni mágur á líka afmæli í dag – skál fyrir því- og hann býður til matarveislu í sveitinni í tilefni dagsins. Á morgun er svo brúðkaup Jóhönnu og Jóa þannig að veisluhöld eru ekkert á undanhaldi enn sem komið er.

Já daginn sem nemendur félagsvísindadeildar hefja námið á ný, virkja hugann og leitast við að bæta framtíðarsýnina mun ég setjast upp í flugvél á Keflavíkurflugvelli, fljúga til Kóngsins Köben, drekka öl, versla, skemmta mér í félagsskap Svanhildar og ektamanns og virkja dönskukunnáttuna sem hefur séð bjartari daga!

Að lokum vil ég einnig skála fyrir Jóa Króa sem átti afmæli í gær – skál - !

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Skúrkar á Skúlagötu
Í gær og í dag hef ég verið að leysa af í Þjónustumiðstöð staðsettri á Skúlagötu. Gærdagurinn var ekki ýkja viðburðarríkur og tiltölulega fáir mættu á staðinn. Dagurinn í dag byrjaði líka rólega og ég gat setið í rólegheitunum og leitað að áhugaverðum hlutum á E-bay! En Adam var ekki lengi einn í paradís og ekki Erla heldur. Áður en varði voru mættir hingað tveir ógæfumenn (er það ekki það kurteisislegasta að segja?), annar kjaftvaskur mikill, hinn öllu fámálli en drungalegri í senn. Ég í framvarðasveitinni á ókunnum vinnustað lenti að sjálfsögðu í því að þurfa að hlusta á þá, afgreiða, brosa og vera kurteis - sem var svo sem ekki ýkja erfitt en öllu má nú ofgera með ógæfumannastælum og þegar þeim fjölgar og eru farnir að sitja hér nálægt tímunum saman fer manni ekki að standa á sama. Ég er glöð að vera að vinna í Vesturbænum því vandamálafólkið í Vesturbænum er þó skárra en skúrkarnir á Skúlagötunni - ég er líka sérstaklega glöð yfir því að vera ekki að leysa meira af hérna þar sem að sá fámáli en drungalegi hótaði að mæta hérna á hverjum morgni við opnun og sitja út opnunartímann!! Guð forði mér frá frá því!

mánudagur, ágúst 15, 2005

Bjór, brennivín og brjálað partý!
Er lýsandi fyrir helgina – þó töluvert ýkt. Hélt samt partý....meira að segja fjölmennt partý en það er í fyrsta skipti síðan um c.a. siðaskipti (Siðaskipti = heimilissiðir breyttust í kjölfar sambúðar)
Í hvert skipti sem að ég hélt að síðustu gestirnir væru að koma....komu fleiri í kjölfarið og ég þurfti að fá lánaða stóla hjá nágrannanum og hluti gestanna hýrðist úti í garðstólunum (að sjálfsögðu vinir Villa enda vil ég mínum eingöngu það besta) Partýið varð svolítið bland í poka partý þó allir væru af um það bil sama kynstofninum. Ólíkur uppruni, aldur, búseta og hjúskaparstaða var áberandi, drykkjavenjur einnig. En eitt áttu allir utan tvo eitthvað sameiginlegt – tengsl sín við Akureyri!
Ég var mjög ánægð með góða mætingu því í fyrstu virtust jafnvel krosstré ætla að bregðast sem önnur tré – en raunin varð önnur og því er vert að fagna!
Ég hefði samt átt að drekka meira og aðeins meira ofaní það – þá hefði mér kannski tekist að komast í 22 gírinn og tjúttað fram á morgun. EN nei í stað þess var ég komin heim um þrjú og hóf tiltekt – ég var mjög fegin daginn eftir. Spurning um að reyna að mála bæinn rauðan á menningarnótt – einhver til??!!!!

En jæja hér ég svo mætt í vinnuna aftur......verð reyndar send á Skúlagötuna eftir hádegi í dag og á morgun til þess að aðstoða. Já ég er svo eftirsóttur starfskraftur að ég er send á milli hverfa......eða kannski bara svona auðvelt að fá mig út í einhverja vitleysu!

Svo vil ég í kjölfar mikillar umræðu laugardags vil ég vara fólk við að taka inn á sig útlendinga......sérstaklega ef þeir eru mjög trúaðir. Vilji einhver vita meira um málið bendi ég þeim á að hafa samband við Himma og Herdísi – sem aldrei munu bíða þess bætur að vera gestrisin!

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Maður myndi halda að eftir jafn langa bloggpásu og raun ber vitni hefði ég frá óteljandi skemmtilegum og áhugverðum sögum að segja.......sem er satt nema ég er búin að gleyma þeim næstum öllum!
Líf mitt hefur reyndar verið tiltölulega viðburðarlítið síðasta mánuðinn eins og í mest allt sumar. Ég hef þó skriðið úr hversdagsleikanum öðru hvoru:

BRÚÐKAUP
Herra og frú Sigmarsson a.k.a. Lóa og Jóhann létu pússa sig saman 23. júlí í safnaðarheimilinu á Akureyri. Eins og mín er von og vísa var ég næstum farin að háskæla enda tilfinningavera mikil :o) Mér tókst þó að kyngja gleðikökknum og halda aftur tárunum mest alla athöfnina. Veislan tókst mjög vel þrátt fyrir að ég hafi verið á “outcast” borðinu og ekki fengið að vera með “vinkonuhópnum”!!! Við úrhrökin sátum aftast í salnum enda vart húsum hæf og hvað þá slíkum hátíðisveislum. Við skemmtum okkur hins vegar konunglega og við borðið fuku ófáir brandararnir. Ég fékk þó að taka þátt í samkvæmisleik (TAKK LÓA) – en vann ekki!

AÐ KVELDI
Ég og Arna héldum í bæinn um kvöldið með Hólmari og Kidda, planið var að setjast og fá sér bjór í rólegheitunum en hver einasti staður var kjaftfullur og hávaðasamur. Það var ekki fyrr en á Oddvitanum að við fengum sæti. Það var reyndar svo hlýtt að við sátum úti langt fram eftir nóttu. Ég held að ég hafi ekki hlegið jafn mikið á einum og sama deginum síðan á menntaskólaárunum og örugglega búin að lengja lífið um 2-3 ár :o)

VERSLUNARMANNAHELGIN
....var án nokkurs efa viðburðarminnsta og rólegasta verslunarmannhelgi í lífi mínu síðan ég og Bakkus bundumst tryggðarböndum. Ég hóf ferðina ein á bláu þrumunni minni og það eina sem var ákveðið var að norður í land skyldi halda. Það endaði með því að ég keyrði í einum sprett til Akureyrar þar sem að mín beið lúxus penthouse íbúðin hans Kidda sem staddur var í pílagrímsferð á U2 tónleika í Köben. Kiddi klikkaði ekki sem fyrr og bjargaði mér um fyrsta flokks gistingu – Takk Kiddi minn!
Helgin var samt með rólegasta móti, ég og Arna fórum ekki einu sinni út úr húsi á föstudagskvöldinu. Á laugardagskvöldinu kíktum við með Söndru Ocares á Hjálma. Ég held að þeir hafi verið búnir að spila í korter þegar ég var orðin lúin og örlítið ölvuð og dreif mig heim – lélegt – ég veit! Á sunnudeginum fór ég á ströndina til pabba, mánudeginum á tangann til mömmu og þriðjudaginn heim. Sem sagt róleg og löng notaleg verslunarmannahelgi!

Það er varla hægt að segja að nokkuð annað merkilegt hafi á daga mína drifið. Djöfull lifi ég tilbreytingalausu lífi!