laugardagur, maí 03, 2008

Það er kannski við hæfi að óska ykkur gleðilegs sumars...ja allavegana ykkur sem búið hér sunnanlands. Skilst að það sé nú heldur vetrarlegt að sjá fyrir norðan. Ég tók menningarvitann á þetta sumardaginn fyrsta og bauð systur minni í menningarreisu á höfuðborgarsvæðinu. Hófum ferðina á Gljúfrasteini og lifðum okkur inn í líf Halldórs og Auðar Laxness, héldum síðan á Kjarvalsstaði og skoðuðum útskriftarsýningu nemenda í LHÍ. Þar mátti sjá margt mjög áhugavert og skemmtilegt en einnig annað síðra. Meðal annars var ég bara ansi hissa á því að einn nemanna hafi einfaldlega fengið leyfi til þess að útskrifast enda virtist honum/henni lítið hafa farið fram síðan á sandkassaárunum. Hvað um það..við enduðum svo ferðina á Listasafni Reykjavíkur þar sem nokkrar sýningar voru í gangi eins og tíðkast á þeim bænum. Ég hélt áfram að vera menningarlega á laugardeginum en tók mér pásu á sunnudeginum.

(Nú eru vörubílstjórarnir byrjaðir að mótmæla aftur og keyra hér hægt fram hjá Kringlunni og þeyta flauturnar. Ég vinkaði þeim vinalega af svölunum en það dugði víst ekki til þess að draga úr ákafanum hjá þeim. Verst hvað þeir eyða nú mikilli olíu á því að vera svona stöðugt á rúntinum. Ég sem hélt þeir þyrftu að spara aurinn. Hvað um það....ég ætla ekki að lýsa því yfir hér hvaða skoðun ég hef á mótmælunum þeirra. Það skilja mig nefninlega ekki allir.)

Mér finnst alger snilld að hafa frídaga svona í miðri viku eins og sl. tvær vikur og þennan síðari notuðum við Arna til þess að rúnta, éta Búlluborgara og franskar með Bernaisesósu, tékka á móturhjólaliðinu, gefa öndunum og sílamávunum brauð (þess má geta að sílamávar heita eftir föður mínum á latínu: larus fuscus. Ja allavegana fyrra nafninu. Mér finnst það afar skemmtileg uppgvötun) já og svo sóluðum við okkur í blíðunni ásamt öðrum kátum borgarbúum.

Í morgun (já ég var komin á fætur löngu fyrir hádegi) hóf ég svo tökur á stuttmyndinni minni sem verður frumsýnd 1. júní n.k.
Ef mér tekst að klára hana á tíma fæ ég vegleg peningaverðlaun fyrir - það er því ekki seinna vænna að byrja á verkinu!!!

Er ekki best að enda þetta á fáeinum myndum??!!

Villi og Erla við morgunverðarborðið í sumarbústað

Við Kerið

Jóhann í fíling í Kántrý


Ég og litli Rebbi

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home