föstudagur, nóvember 24, 2006

AF FÖGRUM FLJÓÐUM OG FÝRUM
Ég hef löngum barist við sjálfa mig um það hvort ég ætti að vera með eða á móti fegurðarsamkeppnum eins og Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur. Mér skilst að það sé ekki kúl og nútímalegt að vera “með” slíkum keppnum en ég hef samt aldrei komist að endanlegri niðurstöðu. Persónulega finnst mér slíkar keppnir vera helst til kjánalegar en ef að einhverjum fögrum fljóðum er sama þótt þær taki þátt í kjánalegri keppni, sem ýtir undir brenglað sjálfsálit ungra sála, þá þær um það. En það var hins vegar í gær sem að ég sannfærðist um að svona keppnir á bara að fella niður – allavegana þegar kemur að Herra Ísland. Sjaldan eða jafnvel aldrei hef ég fengið jafn mikinn kjánahroll eins og í gær þegar ég sat og horfði á Herra Ísland keppnina…..ef frátalið er kannski íslenski bachelorinn. Greyið greyið strákarnir voru flestir svo kjánalegir og óöruggir að þeir vissu ekkert hvort þeir áttu að setja upp kúl svipinn, töff svipinn eða brosa eins og góðir strákar gera. Þar af leiðandi komu allir svipirnir fram í einu sem orsakaði undarlegustu svipi sem ég hef séð í langan tíma. Það var þó enginn sem toppaði gæjann með tunguleikfimina – ó mæ god!

Ekki urðu kynnarnir Arnar Gauti og Silla til þess að bæta ástandið – þau gátu varla farið með heila setningu án þess að horfa niður á spjöldin sín. Það var hræðilegt. Og hvað er það að láta Regínu Ósk syngja einhver dead boring íslensk, róleg lög á svona töffarasýningu??? Hefði ekki verið meira við hæfi að fá Sylvíu okkar eða einhverja hressa tappa til þess að vera með tónlistaratriði. Nei ég bara spyr.

Ég var við það að skjóta mig í hausinn á tímabili…..en stóðst mátíð…..aðallega vegna þess að ég gat hlegið svo mikið að þessu. Þetta er líka í fyrsta skipti sem ég hef getað skellihlegið en verið að drepast úr leiðindum í senn – já það er ábyggilega eftirsóttur hæfileiki!!

Hef samt ákveðið að horfa ALDREI aftur á Herra Ísland keppnina……nema þegar sonur minn tekur þátt ;)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Í morgun fór ég keyrandi á litla blá í vinnuna og þurfti því ekki að angra mig á neinu sem viðkom strætó – haleljúja! Ég mætti því galvösk til vinnu á þeim tíma sem ég ætlaði mér. Viðtalið mitt skrópaði, yfirmaðurinn floginn til Danmerkur og næsti yfirmaður rokinn úr húsi. Ég tek því ekkert viðtal í dag og get ekki skilað af mér þeim tveimur sem bíða því það á eftir að lesa þau yfir!
Ræræræræræræræ…….og þess vegna er ég búin að skoða allt og ekkert á netinu, éta Subway og gera mest lítið. Bíð bara eftir að komast heim – vá hvað ég myndi ekki nenna þessu dagsdaglega. Nema náttúrulega ef það væri vinnan mín að gera bara eitthvað sem mér dytti í hug – það gæti orðið gaman en nú fæ ég bara samviskubit yfir að vera að hangsa þó það sé eiginlega það eina sem er í stöðunni!

Það er aftur að koma helgi…….mér finnst alltaf vera helgi….ég veit ég er alltaf að segja þetta en það er bara þannig. Það er svo stutt á milli helga að mér finnst ég ekki hafa tíma til þess að ákveða hvað ég eigi að gera um helgar þannig að helgin fer í að hugsa um í hvað ég ætti að nýta hana og svo er allt í einu komið sunnudagskvöld.

En hamingjuóskir mánaðarins fá Hössi og Ragnhild sem voru að eignast undurfagran lítinn Hössa Junior!!

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Ég er stoltur bíleigandi sem er svo sem ekki í frásögur færandi því það hef ég verið nokkuð lengi. Mér bara fannst svo skemmtilegt þegar ég komst að því að ég er dæmigerður stoltur bíleigandi borgarbúi – og er þess vegna enn á sumardekkjunum. Fyrir því eru fleiri en ein ástæða en þó er sú helst að maður er lagður í stöðugt einelti keyri maður um á nagladekkjum innan borgarmarkanna. Þegar vetra fer hlaðast upp auglýsingar á strætóskýli um hvað nagladekk séu ógeðsleg og hinir og þessir sérfræðingar eru teknir tali í fjölmiðlum hver á eftir öðrum, til þess eins að fræða okkur vitleysingana um skaðsemi nagladekkja. Í staðinn eigum við öll að keyra um á loftbóludekkjum eða jafnvel bara grófkornaheilsársdekkjum. En þar sem að ég á bara ansi ný og “góð” nagladekk dettur mér ekki að eyða stórfé í ný dekk á meðan. En af því að ég er svo viðkvæm fyrir yfirdrulli þá hef ég ekki þorað að skipta yfir á naglana enda hefur ekki verið ástæða til hingað til. Þar til á sunnudaginn – þá vaknaði ég og úti var hvít jörð og fullt af bílum spólandi í sköflunum. Litli blái stóð í stæðinu sínu umkringdur snjó og nágrönnum mínum sem voru í óða önn að moka úr bílastæðunum sínum (svo þeir næðu bílunum úr skúrunum. Minn þurfti að húka úti í hríðinni). Núh, þetta var svo sem í lagi af því að ég þurfti ekkert nauðsynlega að fara neitt á sunnudeginum en málin versnuðu á mánudagsmorgun. Að venju þurfti ég að mæta til vinnu og hafði svona eiginlega treyst á að snjórinn og hálkan hyrfu um nóttina og ég gæti keyrt alsæl á litla bláa um allar trissur á ný. Sú var ekki raunin svo ég neyddist til þess að taka leigubíl (of seint að pæla í hvaða strætó færi rétta leið). Ég hefði svo sem getað hringt mig inn seina í vinnuna en á ekki skóflu til þess að moka frá bílnum og þó ég byggi svo vel hefði ég ábyggilega bara spólað um á planinu og ekki komist lönd né strönd.
En allavegana þá var notalegt að taka leigubíl. Hann var hlýr og notalegur og ég þurfti ekki að hafa hugann við aksturinn – verst hvað þetta er djöfull dýr ferðamáti. Svo ég tók strætó heim. Það er ágætt að taka strætó, gaman að virða fyrir sér fjölbreytt mannlífið og upplifa hvernig almúginn ferðast á milli staða svona dags daglega. Já þetta var bara kósí………svona í tvær mínútur en þá þurfti ég að ríghalda mér í sætið og var nær dáin úr hræðslu svo óvarlega keyrði bílstjórinn – ég komst samt heil heim. Í morgun var snjórinn ekki enn farinn svo ég neyddist til þess að taka strætó í vinnuna og rölti óvenju snemma út og á biðstöðina. Á leiðinni hugsaði ég með mér hvað það væri nú hressandi að byrja daginn á smávegis göngu, anda að sér frísku lofti og liðka sig aðeins upp fyrir daginn. Ég vissi að ég gat tekið S1 og S3 á áfangastað og skv. Tímatöflunni (sem framvegis verður kölluð viðmiðunartaflan) þyrfti ég bara að bíða stundarkorn. Það var í góðu lagi enda ekki heldur svo kalt – ja miðað við seinustu daga allavegana. Í fjarska sé ég strætó og geri mig tilbúna….en nei úbbs þetta var nr. 3 ekki S3 svo ég beið lengur. Hmmmm jú þarna kom næsti strætó en djö. Hann var númer 6. Og áfram beið ég og á meðan stoppuðu tveir “vitlausir” vagnar til viðbótar. Ég var farin að drepast úr kulda og varð að dansa mér til hita. Ég dansaði fyrir framan skýlið og inní skýlinu, í kringum skýlið og aðeins út á götu. Svo ákvað ég að tékka hvort að mögulega færi einhver annar strætó þangað sem ég væri að fara og jú ALLIR vagnarnir sem ég hafði hunsað voru líka á leiðinni þangað!!!!!!!!! Aaaaaaaaaarrrrrrrrrrgggggg! Ég hefði svo sem getað sagt mér það sjálf þar sem ég var að fara á Lækjartorg – en ég hafði bara viljað vera 100% og taka strætóinn sem ég hafði tekið heim í gær. Og nú þarf ég að vera klukkutíma lengur í vinnunni en ég ætlaði – og svo taka Strætó heim!

Lífið er yndislegt

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ástæða þess að ég hef ekki ritað orð hér í lengri tíma er einfaldlega vegna þess að ég hef ekki kunnað við, fyrr en nú, að eyða tímanum í nýju tímabundnu vinnunni minni í að blogga. Ég er samt með eigin skrifstofu þannig að það er nú ekki eins og einhver komist að því, en samviska mín vildi ekki leyfa þetta fyrr.

Það er ábyggilega fullt að frétta, ég er bara búin að gleyma því öllu nema helginni sem var mjög næs. Borðaði pizzu og drakk rauðvín með Lóu, Örnu og auðvitað Söru Margréti sem, eins og litlum börnum sæmir, harðneitaði að fara að sofa í miðju partýi!!
Á laugardagskvöldið buðu Clausen og Röggs í innflutningsteiti þar sem var fjölmenni nokkuð og mikið sungið og spilað. Þeir frændur höfðu meira að segja útbúið veitingar í massavís og eru greinileg betur að sér í snittufræðum en ég.

Síðdegis á sunnudeginum var planið að fara í IKEA. Villi minn sat undir stýri þennan daginn, það var orðið nokkuð myrkvað og hann hafði ekki komið í nýja IKEA áður. Ég sat í framsætinu og vísaði veginn, enda ekki að fara í jómfrúarferðina mína. En eins og virðist algengt í fari karlmanna þá hlustaði Vilhjálmur ekki af athygli á leiðbeiningar mínar um hvar átti að beygja til hægri, hvar til vinstri og hvar halda beint af augum. Sökum þess hófst heljarinnar krókaleiðaferð um áður óþekkt hverfi Kópavogs, ef þetta var þá Kópavogur. Í upphafi ferðar hafði ég óskað eftir því að stoppað yrði í bakaríinu svo ég gæti nært mig sökum gífurlegs hungurs en það lét ekki vel í eyrum Villa míns, hann vildi nefninlega líka borða, en ekki þar. Þá óskaði ég eftir stoppi í lúgu-sjoppu en neinei það var ekki nógu gott heldur. Svo að þarna í myrkrinu í óþekkta hverfinu var ég nær aðframkomin af hungri og hvergi var matsölustaður sjáanlegur. Ég hugsaði sumum þegjandi þörfina! En af því að ég er alveg einstaklega ratvís komumst við á leiðarenda. Sársvöng gengum við inn í sænsku höllina….eitt skref, tvö skref, þrjú skref, fjögur skref…. Þá hljómaði í hátalarkerfinu: Góðir gestir, klukkan er nú sex og verslunin lokar. Kassar loka eftir örfáar mínútur. Takk fyrir komuna…
…..djö…helv…..andsk..
…..ég fékk að fara í lúgu eftir þetta.