þriðjudagur, apríl 25, 2006

Himmi vinur minn er eins og margir vita fluttur í Kópavog og nú lifir hann í allt öðru tímabelti, er orðinn gallharður HK-ingur og mesti aðdáandi Gunna Birgis og núverandi bæjarstjórnar. Ég hef verið að viða að mér upplýsingum um þennan illvíga sjúkdóm og gengur nokkuð vel enda með þrjá sálfræðinga á mínum snærum. Þeir eru allir sammála um að sjúkdómurinn sé erfiður viðureignar, meðferðir umdeildar og batahorfur oftast litlar. Það eru þó meiri líkur á bata ef við byrjum meðferð innan 6 mánaða búsetutíma. Ég er því bjartsýn á að hægt sé að snúa honum frá villu vegar en veit það gæti reynst honum erfiðar en mörgum aðfluttum Kópavogsbúanum enda er hann með tengdafjölskylduna í næsta húsi.
Ég veit að þetta mun líklega kosta mikla vinnu, blóð, svita og tár en ég gefst ekki upp þó móti blási.

HIMMI – EKKI ÖRVÆNTA ÞÉR VERÐUR BJARGAÐ!


áfram Fram

mánudagur, apríl 24, 2006

Ég er orðin svo meðvituð um þessar bensínverðhækkanir undanfarið að ég er handviss um að bíllinn minn eyðir meiru eftir því sem bensínið er dýrara! Þetta hefur einnig haft þau áhrif að ég hef jafnvel leitt hugann nokkuð alvarlega að því að kaupa mér strætókort og nota bílinn eingöngu spari...sunnudagsbíltúrinn og svoleiðis. Efast samt um að þessi hugsun eigi eftir að yfirgnæfa snobb og þægindagenin í mér!

Allir með strætó
allir með strætó
enginn með Steindóri
því hann er svo mikill
svindlari

Enginn með dóra
enginn með dóra
allir með steingrími
því hann er svo mikill
meistari

föstudagur, apríl 21, 2006

Það virðist ansi margt vera að gerast fyrstu helgina í júlí; Ættarmót á Ströndinni sem verður fyrsta ættarmót lífs míns, Guðrún og Addi flutt til Akureyrar og bjóða í grill og læti, hin árlegu fyrstujúlíhelgarútilegur og ég veit ekki hvað og hvað. Mér sýnist ég verða að reyna að vera á fleiri en einum stað í einu þessa helgi en annað eins hefur víst gerst.
Mér eru sérstaklega minnisstæð tvö atvik þar sem að mér tókst þetta merkilega vel:

1. Þegar ég var að vinna á leikskóla og samstarfsmaður minn brá sér frá í hádegismat eða eitthvað slíkt. Kom svo til baka og spurði hvað ég hefði verið að gera á Eiðistorgi í hádeginu. Ég kannaðist nú lítið við það en hann hafði nú samt séð mig í rauðu íþróttabuxunum mínum, hvítu úlpunni með hvítu húfuna! Ég hef ekki enn uppgvötað hvernig ég fór að þessu.

2. Þegar ég var í sjoppunni á Njálsgötunni og fannst ungur maður horfa óvenju mikið á mig. Ég er að sjálfsögðu alvön að ungir karlmenn horfi á mig...jú gamlir reyndar líka en þetta var svona aðeins öðruvísi. Þegar ég var svo komin að afgreiðsluborðinu stillti þessi ungi maður sér upp við hliðina á mér og hélt áfram að gjóa augunum að mér. Eftir smá stund heilsaði hann. Ég leit á hann og mundi ekki eftir að hafa nokkurntímann séð þennan mann áður en heilsaði þrátt fyrir það fyrir kurteisissakir. Hann sá að ég var ekki alveg að kveikja og spurði hvort að ég þekkti sig ekki og vandræðaleg ég svaraði neitandi og blótaði sjálfri mér um leið fyrir að hafa líklega átt í ölvuðu einnar nætur ástarsambandi við hann í menntó. Áfram hélt hann og spurði hvort ég héti ekki örugglega Erla. Ég játti því og blótaði sjálfri mér enn meira fyrir að hafa greinilega verið drukknari en hann. “Ég hélt það” sagði hann brosandi og spurði hvort að ég myndi ekki eftir því að hafa verið heima hjá honum kvöldið áður með honum og ? vin hans að taka myndirnar. Myndir??? Nei ég kannaðist sko ekki við að hafa verið ein með tveimur strákum að taka einhverjar myndir – ég var erlendis það kvöld. “Ertu viss?” spurði hann þá. “Er ég viss??? Já ég var að koma heim í morgun”!!! Strákurinn afsakaði sig og skildi ekkert í þessu og enn minna skildi ég. Hafði mér kannski þarna tekist að vera á tveim stöðum í einu....meira að segja sitthvoru landinu?! Hver veit – eina sem ég hef verið að hafa áhyggjur af er að þessar myndir sem að hin “ég” og strákarnir vorum að taka séu ósæmilegar og dúkki upp á netinu einn daginn!!!

miðvikudagur, apríl 19, 2006

ELSKU ÍBÚÐIN MÍN
Á laugardaginn rann upp langþráð stund. Klukkan 13:00 renndum við leiguflutningabílnum okkar í hlað á Háaleitisbraut 56 og fengum lyklana að nýja slotinu. “penthouseíbúð” með útsýni til sjávar og sveita og feikinógu plássi fyrir okkur og gesti. Villi, Danni, Sölvi og Halli snöruðu búslóðinni upp á 4. hæð á meðan ég og Arna keyrðum um á leiguflutningabílnum okkar og keyptum aðeins meira fyrir strákana að bera.
Það var náttúrulega ekki hægt annað en að launa aðstoðarfólkinu fyrir vinnuna svo að við buðum að sjálfsögðu upp á pizzu, bjór og sterkara um kvöldið. Himmi og Herdís heiðruðu okkur með nærveru sinni þrátt fyrir að hafa einnig staðið í flutningum þennan daginn, sem og Kolla og Sunna. Fólk fór misseint heim og sumir ekki fyrr en farið var að birta á ný.

Við erum þó enn að koma hlutunum í gott lag enda áttum við ekki nógu mikið af húsgögnum til þess að fylla svona mikið fermetraflæmi en þetta er allt í áttina og vinir og vandamenn eru að sjálfsögðu velkomnir í heimsókn. Enn hefur þó ekki verið opnað fyrir næturgistingu þar sem að gestaherbergið er ekki tilbúið.

Þúsund þakkarkossar til ykkar sem hjálpuðuð okkur – þið eruð frábær!

Sumardjamm??? Anyone?

(Jói Krói varstu að labba fram hjá vinnunni minni áðan?)

Merry Summer everybody

Erla

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Okkur tókst loksins að taka ákvörðun hvernig nýta skyldi páskafríið - eða já reyndar ákvað ég það og reyndi í leiðinni að taka tillit til allra sem það snerti. Eftir vinnu í gær sóttum við nýja sófasettið okkar og tróðum í bílskúrinn hjá Stebba bróður þar sem restin af búslóðinni hefur einnig beðið. Brunuðum síðan hingað á Hvammstanga eftir að hafa fengið Rebekku til þess að líta eftir Lottu og Fróða. Förum síðan í kvöldmat til pabba á Ströndinni í kvöld og keyrum svo aftur suður annað kvöld. Afhending íbúðarinnar er síðan á hádegi á laugardag - mig vantar enn nokkra duglega sjálfboðaliða til þess að aðstoða. Kannski vert að minnast á að við munum að sjálfsögðu launa aðstoðarfólki með viðeigandi hætti!!
Kannski að maður geti svo í fyrsta skipti kíkt á páskatjútt í borginni - ekki seinna vænna eftir 6 ára búsetu!

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Samkvæmt nýjustu fréttum er miðja höfuðborgarsvæðisins í dag í Fossvogi, nánar tiltekið í bakgarði í Goðalandi. Hefði verið skemmtilegra hefði það verið í bakgarðinum hjá Bjöggu og Ingó í Gautlandinu – þau hefðu getað haldið partý með viðeigandi nöfnum eins og “Magnað í miðjunni” .....og já eins og ég segi, einhverjum fleiri skemmtilegum nöfnum. En málið er að ég sé nú að staðsetningin á nýju íbúðinni okkar er svona aldeilis nálægt miðjunni og það verður að teljast gott. Reyndar er byggðin orðin svo dreifð að það liggur við að ég sé að flytja í miðbæinn, svona miðað við það. Held samt að ég muni sakna hverfisvitundarinnar héðan úr Vesturbænum þar sem að allir halda með KR, versla í Melabúðinni og kaupa sér í í ísbúðinni Úlfarsfelli þó að úti sé fimbulkuldi og klukkan nálgist miðnætti. En hver veit, kannski er bara rífandi stemming í verslunarkjarnanum Miðbæ, kannski mæta allir í kaffi í bakaríið þar fyrir vinnu, skreppa svo í sjoppuna í pulsu í hádeginu og grípa svo með sér fisk úr fiskbúðinni svona rétt fyrir kvöldmat. Þarna er líka banki, hreinsun og kjötbúð þannig að ég sé ekki fram á að þurfa að fara langt til þess að sækja nauðsynjar.
Það líður semsagt að afhendingu – afhendingu sem gæti vart átt sér stað á leiðinlegri tíma nema kannski það væri Þorláksmessa. Við fáum nefninlega afhent á laugardaginn og fyrir landsbyggðartúttu eins og mig sem vill heimsækja familíuna á hátíðum sem þessum er þetta ómögulegt. Valið mitt stendur nú á milli þess að fara til mömmu á morgun í eina nótt og pabba í eina nótt, koma svo aftur og eyða páskunum í svotil tómri íbúð – eða þá að keyra til mömmu á morgun, koma suður á laugardaginn og keyra aftur norður til pabba á sunnudagsmorgun! Hvorug hugmyndin heillar mikið – ég er ekki að nenna þessari keyrslu. En hvað getur maður gert? Þið sem verðið í bænum á laugardaginn, þykir vænt um mig og eruð til í að aðstoða við smá kassaburð endilega hafið samband :o)

Gleðilega páska ungarnir mínir
Erla María