mánudagur, maí 30, 2005

Helgin búin og raunveruleikinn tekinn við. Þetta var annars ágætis helgi í flesta staði. Var komin í rúmið á miðnætti á föstudag, úrvinda eftir langa vinnuviku. Ég var því eiturhress á laugardagsmorguninn - labbaði laugaveginn með Örnu og síðan fórum við á rúntinn sem endaði í Hveragerði eftir að Arna tók vitlausa beygju í eitt skiptið! Kíktum í Eden. Það var eins og stíga 15 ár aftur í tímann nema hvað að beint á móti er einungis eftir grunnurinn af Tívolíinu góða.
Á laugardagskvöldið var svo LOST kvöld heima hjá mér þar sem planið var að klára LOST seríuna og drekka bjór. Eftir tvo þætti og aðeins fleiri bjóra var fólk orðið skrafhreifnara en áður og athyglin ekki alveg á þáttunum. Sýningin var því stöðvuð og ákveðið að láta LOST bíða aðeins lengur. Ég yfirgaf síðan teitina og hélt í heimsókn í teiti hjá Soffíu og vinkonum og þaðan fór ég á 22. Þetta gerðist allt saman frekar snemma kvölds og mín var komin heim í rúmið klukkan 01:00....einstaklega dugleg!!

ég og Villi kláruðum síðan LoST seríuna í gær ---- mjög spennandi.....verst hvað er langt í næstu!

Horfði síðan á White noise......ekki nógu gott......góð hugmynd en hefði verið hægt að gera hana miklu betri. Persónusköpunin var sama og engin, og margt annað sem hefði mátt fara betur.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Ég fór í 10/11 áðan sem er ekki í frásögur færandi svo sem enda búðin á neðri hæðinni. Það er alltaf kalt í 10/11 á Hjarðarhaga og ég gleymi alltaf að fara í peysu áður en ég fer inn og svo sé ég alltaf eftir því strax og ég labba inn - þetta endar svo alltaf með því að ég eyði allt of miklum pening þar - ekki bara af því að þetta er okurbúlla heldur líka af því að mér er alltaf svo kalt að ég hleyp um búðina, gríp með mér handahófsvalda hluti, borga og flýti mér svo út. Svona eru dæmigerðar 10/11 ferðir mínar........nema áðan því þar var þá að störfum ungmey sem er heiminum ekki ókunn. Þarna var á ferð hin margrómaða söngkona Erna Hrönn íklædd grænni 10/11 peysu og raðaði myllubrauði í hillurnar. Ég gaf mig á tal við hana og smám saman hlýnaði mér og það var eins og hitastigið í búðinni hækkaði örlítið. Mér fannst þetta svolítið undarlegt en áttaði mig svo á því að það hlaut að hafa verið andrúmsloftið sem var alltaf svo kalt......kalt andrúmsloft sem stafaði af köldu afgreiðslufólki sem kom fram við mig sem eina af fjöldanum....sem viðskiptavin án andlits, án sálu og án tilfinninga - samt verslaði ég hjá þeim nær daglega síðasta sumar. Það var því gleðistund þegar ég gekk út úr 10/11 með bros á vör og eðlilegan líkamshita í dag....í fyrsta skipti. Ég lýsi því yfir ánægju með það að Erna sé orðin minn kaupmaður á horninu :o)

miðvikudagur, maí 25, 2005

Líf mitt hefur öðlast tilgang á ný - tilgangur lífs míns í dag og næstu 100 daga eða svo er að vinna og vinna og vinna og vinna, ekki minna en 12 tíma á dag! Dagur 1 í nýju lífi var í gær - hann gekk vel og ekki sakaði að það er MEGA-vika hjá Domino´s! Það er því ekki víst að þið eigið eftir að sjá mikið af mér þetta sumarið þar sem að dagarnir hjá mér líða einhvern veginn svona:

Vakning 6:45 - 07:00 - Snús, á fætur, sturta, andlit, hársléttun, morgunmatur
Vesturgarður 08:00 - 15:50 - Hefðbundin skrifstofustörf innan félagsþjónustunnar
Keyrsla 15:50 - 16:25 - Sæki strákana í leikskólana
Láland 16:25 - c.a. 20:00 - Vinna í Lálandi
Annað eftir kl. 20:00 - Heim að hitta Villa minn, sjónvarpsgláp, heimsóknir eða annað afslappandi. Planið er samt að hér verði farið út að hjóla á góðviðrisdögum eða jafnvel ganga því einhver hvíslaði því að mér að hreyfing væri heilsubót!
Svefn 24:00/01:00 - 06:45 - Svefn og aðrar svefnherbergisvenjur

Eins og þið sjáið þá gæti orðið erfitt að ná í mig í sumar og enn erfiðara að hitta á mig - en endilega reynið af og til! Helgarnar eru reyndar lausar að mestu - fyrir utan þrjú brúðkaup, stúdentsafmæli og eitthvað svoleiðis smávægilegt :o)