Já eins og allir sem þekkja mig vita þá er ég landsbyggðartútta og stolt af því – þó að foreldrar mínir, amma og afi og félagar mínir sem enn forðast borgarlífið haldi að ég sé orðin harðnaður Reykvíkingur – þá veit ég að þó að ég hverfi af landsbyggðinni þá hverfur landsbyggðin aldrei úr mér! Þetta fann ég þegar ég fór norður um helgina og stoppaði á tveimur aðalstöðunum norðan heiða....Hvammstanga og Skagaströnd. Þar býr fólk við ró og frið, hefur tíma til að elda hádegismat OG kvöldmat og slappa af eftir erfiðan vinnudag. Þvílík rósemdartilfinning sem helltist yfir mig þessa helgina, þreytan og stressið lak af mér um leið og ég keyrði niður af Holtavörðuheiðinni – kannski ég reyni að fara oftar!
Fólkið á landsbyggðinni er líka ótrúlega nútímalegt og kúl – á landsbyggðinni skiptir aldurinn ekki máli allavegana ekki í tilviki ömmu og afa sem tóku upp á því um daginn að kaupa sér geysiöfluga safapressu og líkamsræktarkort. Nú drekka þau amma (80) og afi (85) nýpressaða grænmetis- og ávaxtasafa á hverjum morgni áður en þau rölta í ræktina!! Hrefna frænka (93) nýtur einnig góðs af nýju safapressunni og þó hún hafi ekki fjárfest í líkamsræktarkorti fer hún út á skokkið daglega gefið að færið sé gott!!
Ég hef því í fyrsta skipti í langan tíma sett mér markmið – að byrja í ræktinni þegar ég kemst á níræðisaldurinn!!!!