mánudagur, október 27, 2008

Það eru allir svo ótrúlega duglegir að taka þátt í kreppunni þessa dagana. Sumir komast náttúrulega ekki hjá því en aðrir taka meðvitaða ákvörðun um að vera með - því í dag þykir ekki flott að flíka því að ekkert bjáti á....hvað þá að maður eigi eitthvað af peningum. Þeir sem eiga Range Rover og Benzjeppa hafa annað hvort parkerað honum í bílskúrnum og aka nú um á "konubílnum" /smábílnum eða afsaka sig með því að þeir geti ekki losað sig við svo dýran bíl - það kaupir enginn svoleiðis á krepputímum.

Það þykir til háborinnar skammar að sjást í sófakaupahugleiðingum í Epal og Heima en ber vott um mikla skynsemi og umhverfisvitund að mæta í Góða hirðinn. Þar ægir nú saman þeim stóru og smáu - bankamönnunum og fólkinu sem fær fjárhagsaðstoð hjá borginni. Allir að reyna að gera góð kaup. Sumir af því að þeir þurfa þess meir en nokkurn tímann áður - hinir af því að það er "inn" í dag.

Ég keyri enn um á "jeppanum" mínum þó hann eyði aaaalllt of mikið af bensíni. Fyrir því eru nokkar ástæður:
a) Það er ekki pláss fyrir hann í bílskúrnum fyrir drasli
b) Þó það væri pláss fyrir hann þá á ég ekki lítinn konubíl til þess að grípa í
c) Ég fer ekki í strætó fyrr en að það verður frítt

Ég fer samt ekki í innkaupaferðir í Epal og Heima....ég fer ekki einu sinni í Góða hirðinn einfaldlega af því að mig vantar ekki nokkurn skapaðan hlut.

Í staðinn fyrir að kaupa mér fáránlega dýr húsgögn og dragt í Karen Millen fór ég til Montreal í fimm daga ferð. Þar borðaði ég úti dag eftir dag og kvöld eftir kvöld. Ferðaðist um í hvítum limmósínum og drakk kampavín í morgunmat og rauðvín í kvöldmat.

Í staðinn fyrir að versla mér svo svefnbekk og mussu í Góða hirðinum ætla ég að fara til Ediborgar í Nóvember. Spóka mig um í kastölum, drekk öl á pöbbum, arka um listasöfn og kynna mig sem Nicelending - svo að fólk haldi nú ekki að ég sé hryðjuverkamaður eða þaðan af verra; hryðjuverkamaður sem er íslensku auðmaður í þokkabót. Í dag er víst fátt verra en það!!

Hér er svo mynd af mér í galaveislu hjá Philip Chang í Montreal