miðvikudagur, júlí 09, 2008

Það er svo sannarlega í frásögur færandi að í gær fór ég út að hlaupa. Ég hef varla hlaupið síðan bjórinn var lögleiddur á Íslandi (með smávegis skekkjumörkum). Ástæðan var sú að vinnufélagi minn skoraði á okkur restina að taka þátt í a.m.k. skemmtiskokkinu í Glitnismaraþoninu í ágúst. Ég veit að skemmtiskokkið hljómar eins og að hver einasta amma í landinu gæti hlaupið það (sem má vel vera) en fólk eins og ég á næstum engan séns í hlaupóðar ömmur landsins. Nema hvað ég sem fyrrverandi íþróttahetja gat að sjálfsögðu ekki skorast undan. Vinnfélaginn hafði útbúið æfingaáætlun fyrir okkur hugrökku og svo skyldu allir æfa saman sem gætu. Ég hins vegar var fyrstu (og auðveldustu) vikuna send út í bæ að vinna svo að ég missti af fyrstu þremur æfingunum. Þar sem ég hef ekki sjálfsaga í að æfa ein sleppti ég því fyrstu æfingaplönunum. En í gær var ég mætt galvösk aftur á vinnustaðinn með hlaupagallann og skóna í bakpoka og þokkalega til í slaginn. Á slaginu 17:00 hlupum við út úr turninum og niður í Fossvoginn með símann í annarri (v. tímatöku) og vatnsflöskuna í hinni. Þetta gekk allt ágætlega og hálftíma síðar vorum við mættar aftur upp í vinnu. Sem fyrrverandi íþróttahetja (eins og ég hef áður nefnt) teygði ég að sjálfsögðu vel á eftir hlaupin til þess að forðast óþarfa óþægindi daginn eftir. Það er því ánægjulegt að segja frá því að ég var algerlega strengjalaus í dag......eeeeen eitthvað hefur klikkað því mér líður eins og konu á níræðisaldri á leið í mjaðmaaðgerð og hef því varla verið gönguhæf í dag. Á morgun er næsta æfing - markmiðið er að sjálfsögðu að mæta en hvort ég hníg niður eins og ellihrumur verður að koma í ljós..... þetta gæti því verið spurning um að hlaupa bara Latabæjarmaraþonið (sem mér skilst að sé heill kílómetri) sem er þó meira en margir aðrir gera ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home