fimmtudagur, ágúst 05, 2010

18 again – and loving it
Það er u rétt 7 mánuðir frá því að hlaut „þrítugs-titilinn“ óhugnalega. Ég man að ég vaknaði á nýársdagsmorgun (ja eða kannski svona frekar rúmlega hádegi) og hreinlega skalf yfir því að þessi stund væri í raun orðin að veruleika. Tilhugsunin um að nú gæti ég ekki þóst vera unglingur lengur heldur væri nauðbeygð að fullorðnast var meira en ég réð við.

Núna myndi samfélagið gera til mín kröfur og að við þær þyrfti ég að standa – nú þyrfti ég að:

-Kaupa mér dragt og fara að klæða mig eins og fullorðin kona
-elda kvöldmat á hverjum kvöldi – fisk annan hvern dag, lambalæri á sunnudögum og einhverja hollustu þar á milli.
-Hætta að dansa eins og vitleysingur á stað fyrir samkynhneigða um helgar og sötra þess í stað kampavín á Austur þegar ég færi á djammið
-Baka brauðbollur og súkkulaðikökur um helgar
-Fara í huggulegar sumarbústaðaferðir með öðrum pörum (helst barnafólki) um Verslunarmannahelgar
-Og jú auðvitað að raða niður börnum enda að komast á síðasta séns

Og það getur vel verið að samfélagið að stórum hluta geri þessar kröfur til mín en ég er hreinlega ekki tilbúin að sleppa höndinni af unglingnum í mér. Á tíu ára stúdentsafmælinu mínu í sumar sá ég líka að það voru heldur ekki nærri því allir samstúdentar mínir hvort sem þeir áttu börn eða ekki. Sum elda kannski kvöldmat á hverju kvöldi o.s.frv en öll sem eitt kunnu þau ennþá að sletta úr klaufunum.

Um Verslunarmannahelgina fór ég ekki heldur í huggulegan sumarbústað með barnafólki . Ég fór til Akureyrar á útihátíð – fór út kvöld eftir kvöld, hitti vini og kunningja, dansaði eins og djöfullinn og skemmti mér ferlega vel. Ég reyndar sleppti því að enda ofurölvi á bekk niðrí bæ, fara í sleik við ókunnuga stráka, rífa kjaft við dyravörðinn og skríða inn í lítið kúlutjald þegar annað fólk var að fara á fætur – svona eins og þegar maður var 18.

Mér fannst ég samt vera 18 all over again – bara örlíltið þroskaðri - og það var frábært!

(Það getur samt vel verið að ég fari að uppfylla einhverjar af ofantöldum kröfum svo veriði ekki að hafa of miklar áhyggjur af mér)
EMTL

mánudagur, október 27, 2008

Það eru allir svo ótrúlega duglegir að taka þátt í kreppunni þessa dagana. Sumir komast náttúrulega ekki hjá því en aðrir taka meðvitaða ákvörðun um að vera með - því í dag þykir ekki flott að flíka því að ekkert bjáti á....hvað þá að maður eigi eitthvað af peningum. Þeir sem eiga Range Rover og Benzjeppa hafa annað hvort parkerað honum í bílskúrnum og aka nú um á "konubílnum" /smábílnum eða afsaka sig með því að þeir geti ekki losað sig við svo dýran bíl - það kaupir enginn svoleiðis á krepputímum.

Það þykir til háborinnar skammar að sjást í sófakaupahugleiðingum í Epal og Heima en ber vott um mikla skynsemi og umhverfisvitund að mæta í Góða hirðinn. Þar ægir nú saman þeim stóru og smáu - bankamönnunum og fólkinu sem fær fjárhagsaðstoð hjá borginni. Allir að reyna að gera góð kaup. Sumir af því að þeir þurfa þess meir en nokkurn tímann áður - hinir af því að það er "inn" í dag.

Ég keyri enn um á "jeppanum" mínum þó hann eyði aaaalllt of mikið af bensíni. Fyrir því eru nokkar ástæður:
a) Það er ekki pláss fyrir hann í bílskúrnum fyrir drasli
b) Þó það væri pláss fyrir hann þá á ég ekki lítinn konubíl til þess að grípa í
c) Ég fer ekki í strætó fyrr en að það verður frítt

Ég fer samt ekki í innkaupaferðir í Epal og Heima....ég fer ekki einu sinni í Góða hirðinn einfaldlega af því að mig vantar ekki nokkurn skapaðan hlut.

Í staðinn fyrir að kaupa mér fáránlega dýr húsgögn og dragt í Karen Millen fór ég til Montreal í fimm daga ferð. Þar borðaði ég úti dag eftir dag og kvöld eftir kvöld. Ferðaðist um í hvítum limmósínum og drakk kampavín í morgunmat og rauðvín í kvöldmat.

Í staðinn fyrir að versla mér svo svefnbekk og mussu í Góða hirðinum ætla ég að fara til Ediborgar í Nóvember. Spóka mig um í kastölum, drekk öl á pöbbum, arka um listasöfn og kynna mig sem Nicelending - svo að fólk haldi nú ekki að ég sé hryðjuverkamaður eða þaðan af verra; hryðjuverkamaður sem er íslensku auðmaður í þokkabót. Í dag er víst fátt verra en það!!

Hér er svo mynd af mér í galaveislu hjá Philip Chang í Montreal

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Eins og ekki svo ófáir vita bý ég í næsta húsi við Kjöthöllina í Miðbæ sem er rómuð fyrir fyrsta flokks úrval af kjöti i smáum sem stórum skömmtum. Þangað förum við hjúin stundum til að versla eitt og annað sem vantar í ísskápinn án þess að gera stórinnkaup sem myndu setja heimilið á hausinn í fáum innkaupaferðum.

Það er ósköp þægilegt að geta bara hlaupið út á inniskónum og yfir bílastæðið til þess að kaupa inn en oft á tíðum verða innkaupaferðirnar þó til vansa þar sem að ýmislegt mætti fara í umræddri hverfiskjörbúð.

Til að mynda höfum við fengið myglaðan brauðost, útrunna myglaða FRYSTA pizzu, útrunna rétti og þurft að borga mismunandi verð fyrir AG drykkjarjógúrt eftir dögum og starfsmönnum. (á því gerði ég vikukönnun án þess að gera athugasemdir við starfsfólkið). Mesti munurinn var rúmlega 50 krónur og skal taka það fram að ekki er notast við strikamerkjavélar í búðinni.

Við höfum nú oft blótað þessum óheppniskaupum en þó haldið áfram viðskiptum okkar í litlum mæli. Í dag fór ég og verslaði mér m.a. 1944 fiskibollur. Á meðan ég beið í röðinni að kassanum með varninginn og veskið í fanginu reyndi ég að glugga í Séð og Heyrt tímaritið en þá rann 1944 rétturinn úr höndum mínum og beint á gólfið. Ytri umbúðirnar runnu þá af en bakkinn sjálfur var óskemmdur þannig að ég renndi honum bara aftur í. Þegar ég hafði borgað vörurnar og var að setja pokann í bílinn rann pokinn úr höndunum á mér og úr datt 1944 rétturinn og aftur runnu ytri umbúðirnar af. Það var þá sem ég veitti því athygli að fiskibollurnar mínar voru útrunnar....svo mjög að síðasti söludagur var 17. ágúst!!!!! Já takk fyrir ...það voru 9 dagar frá síðasta söludegi! Ég fór því aftur inn í búðina og lét þar afgreiðslukonuna (sem ég held að sé einn eigendanna) vita. Henni virtist ekki mikið brugðið við fréttirnar og sagði mér að ég gæti leitað að nýrri rétt annars myndi hún bara endurgreiða mér. (uu nema hvað)
Ég fór í kælinn og fann þar fleiri fiskibollurétti, einn sem rennur út á morgun og annan sem rennur nú ekki út fyrr en 4. september.......ég þarf varla að taka fram hvað ég valdi.

Ég skil vel að stöku sinnum fari útrunnar matvörur fram hjá starfsmönnum búða en þau skipti sem að við höfum lent í slíku og því að borga ýmis verð fyrir sömu vöru eru orðin helst til mörg til að ég trúi því að af og til séu þetta bara tilviljanir.

p.s. kjötið er samt mjög fínt :)

Skrifa seinna um magnaða Listadaga og Kántrýdaga á Skagaströnd

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Jæja jæja það held ég nú!

Nú þegar eru nokkrir búnir að tilkynna komu sína á Skagaströndina um helgina - mér til sérstaklega mikillar ánægju :)

Ég vil samt fá enn fleiri svo ég mælist til þess að þið rottið ykkur saman í bíla og brunið norður á föstudaginn (að rotta sig saman í bíla er umhverfisvænna, sparar pening, gefur góða möguleika á magnaðri stemmingu og söng)

Hlakka til að sjá ykkur

Erla Listadagaskipuleggjandi og áróðurskona fyrir mætingu á Skagaströnd um helgina

mánudagur, ágúst 11, 2008

Komin heim frá Skotlandi!

Anyways....næstu helgi eru kántrýdagar á Skagaströnd....eeeeeen þá eru líka Listadagar í gamla frystihúsinu sem að ég og María "frænka" höfum verið að skipuleggja. Þar sýna nokkrir listamenn (áhuga og atvinnumenn) að sýna verkin sín. Ljósmyndir, málverk, teikningar, ljóð og tónlist.

Ég geri ráð fyrir að þið mætið öll. Frítt á tjaldstæðinu (sem er btw. í 1 mín. fjarlægð frá húsinu mínu), jafnvel pláss í garðinum hjá pabba....

Það verður að sjálfsögðu magnað stuð...tala nú ekki um ef að þið mætið!

Grill, gott veður og góðir listadagar.....væri endalaust glöð að sjá sem flesta og enn glaðari ef að einhverjir gætu mætt á föstudeginum og hjálpa við uppsetningu :)


miðvikudagur, júlí 09, 2008

Það er svo sannarlega í frásögur færandi að í gær fór ég út að hlaupa. Ég hef varla hlaupið síðan bjórinn var lögleiddur á Íslandi (með smávegis skekkjumörkum). Ástæðan var sú að vinnufélagi minn skoraði á okkur restina að taka þátt í a.m.k. skemmtiskokkinu í Glitnismaraþoninu í ágúst. Ég veit að skemmtiskokkið hljómar eins og að hver einasta amma í landinu gæti hlaupið það (sem má vel vera) en fólk eins og ég á næstum engan séns í hlaupóðar ömmur landsins. Nema hvað ég sem fyrrverandi íþróttahetja gat að sjálfsögðu ekki skorast undan. Vinnfélaginn hafði útbúið æfingaáætlun fyrir okkur hugrökku og svo skyldu allir æfa saman sem gætu. Ég hins vegar var fyrstu (og auðveldustu) vikuna send út í bæ að vinna svo að ég missti af fyrstu þremur æfingunum. Þar sem ég hef ekki sjálfsaga í að æfa ein sleppti ég því fyrstu æfingaplönunum. En í gær var ég mætt galvösk aftur á vinnustaðinn með hlaupagallann og skóna í bakpoka og þokkalega til í slaginn. Á slaginu 17:00 hlupum við út úr turninum og niður í Fossvoginn með símann í annarri (v. tímatöku) og vatnsflöskuna í hinni. Þetta gekk allt ágætlega og hálftíma síðar vorum við mættar aftur upp í vinnu. Sem fyrrverandi íþróttahetja (eins og ég hef áður nefnt) teygði ég að sjálfsögðu vel á eftir hlaupin til þess að forðast óþarfa óþægindi daginn eftir. Það er því ánægjulegt að segja frá því að ég var algerlega strengjalaus í dag......eeeeen eitthvað hefur klikkað því mér líður eins og konu á níræðisaldri á leið í mjaðmaaðgerð og hef því varla verið gönguhæf í dag. Á morgun er næsta æfing - markmiðið er að sjálfsögðu að mæta en hvort ég hníg niður eins og ellihrumur verður að koma í ljós..... þetta gæti því verið spurning um að hlaupa bara Latabæjarmaraþonið (sem mér skilst að sé heill kílómetri) sem er þó meira en margir aðrir gera ;)

sunnudagur, júlí 06, 2008

Útileguhelgin mín varð að engu - enda ekki forsvaranlegt að ferðast í bíl þegar eldsneytisverðið er jafn hátt og raun ber vitni.
Í staðinn hafði ég það gott heima hjá mér, horfði á kvikmyndir, þvoði þvott, eldaði mat, las blöðin, drakk öl, át frostpinna og svaf.......

Þar sem að ég hef ekkert meira spennandi að deila með ykkur eftir helgina fannst mér rétt að gleðja augun og bjóða upp á myndasýningu úr fortíðinni - veit að sum ykkar hafa beðið spennt: (restin er á myndasíðunni)