föstudagur, október 05, 2007

Ég kem sjálfri mér sífellt á óvart aftur og aftur. Kunnugir vita að ég kann best við mig sofandi. Ekki af því að ég sé svo leiðinleg að ég kunni því betur við mig þannig heldur hef ég hreinlega haft yndi af því að sofa frá því að ég man eftir mér. Ég man að pabbi var vanur að vekja mig um 11 leytið en þá þótti honum nóg komið. Hann hefur linast með árunum og nú þegar ég kem í heimsókn fæ ég yfirleitt að sofa óáreitt til hádegis og jafnvel lengur. Á mennta og háskólaárunum dirfðust fáir að hringja fyrir tvö á daginn um helgar og þeir sem þekktu mig best vissu að það var vænst til árangurs að hringja bara um kvöldmatarleytið til þess að athuga hvort að ég væri vöknuð og mögulega til í meiri gleði.

þessi ást mín á svefni hefur orsakað fjölda morgunverðarlaus ár, öfuga sokka, reytt hár og fjöldan allan af "á síðustu stundu í skólann/vinnuna atburði". .....og þess vegna kem ég mér sífellt á óvart þegar ég er með strákana mína. Í morgun labbaði ég þokkalega virðuleg og vel klædd út úr húsi, búin að koma þremur drengjum á aldrinum 2 til 6 ára á fætur, fæða, klæða, bursta þvo, nesti, stígvél og í skóla og leikskóla. Allt á tæpum klukkutíma og enginn grenjandi. Svakalega hlýt ég að verða mikil súpermamma þegar að því kemur.

Reyndar er svolítið svekkjandi að þurfa að vakna líka eldsnemma á morgun og á sunnudag - ég meina það er helgi!!! En ég hugga mig við það að það lítur allt út fyrir að ég geti sofið aðeins frameftir á mánudaginn. Og með það í huga þrauka ég gegnum helgina.


Síðustu helgi fór ég hins vegar á djammið og í dag þykir það víst í frásögur færandi enda hefur þolinmæði mín gagnvart biðröðum minnkað hratt og örugglega og gildir þá einu hvort um er að ræða biðröð á skemmtistað eða eftir leigubíl. Yfirleitt er mér þó verr við leigubílaraðirnar því ég er vanalega fyrst heim og það þýðir að ég bíð ein... og þegar það er löng röð, kalt úti, ég á karl sem bíður heima og gleðin farin að renna af mér þá er ég í engu stuði til þess að brydda upp á innihaldslausum samtölum við ókunnuga.
....djöfull getur maður verið leiðinlegur!